13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
„Þetta verður krefjandi verkefni“
Mikið tekjutap blasir við tjaldsvæðunum á Akureyri í sumar vegna fjöldatakmarkana að sögn forstöðumanns. Landlæknisembættið hefur birt leiðbeiningar fyrir tjaldstæði og önnur minni gistirými sem tóku gildi þann 4. maí. Þar er meðal annars kveðið á um að tjaldsvæði megi ekki taka á móti fleiri en 50 gestum nema að hægt sé að skipta svæðinu upp í sóttvarnahólf. Settar eru þær skyldur á rekstraraðila að þrífa og sótthreinsa sameiginleg rými og snertifleti að minnsta kosti tvisvar á dag. Þeir þurfa sömuleiðis að tryggja aðgengi að handþvottaðstöðu og handspritti. Þá ber að virða 2 metra regluna á milli einstaklinga og skal vera að lágmarki fjórir metrar á milli tjalda, tjaldvagna, fellihýsa, hjólhýsa eða húsbíla.
Kostar mannafla að fylgja reglunum
Tryggvi Marinósson, forstöðumaður tjaldsvæðanna á Akureyri, segir að starfsfólk sé að átta sig á þessum reglum og fara yfir stöðuna. „Það eru nokkur atriði sem eru óljós og óvíst hvernig við komum til með að skipuleggja okkur fyrir sumarið. Erlendir gestir hjá okkur hafa verið á bilinu 35-45% af gestum og því ljóst að um rosalegt tekjutap verður að ræða og horfurnar með fjölda Íslendinga eru ekki bjartar miðað við fjöldatakmarkanirnar sem settar hafa verið. Við þetta bætist að framfylgni reglna verður væntanlega nokkuð mannaflsfrek og þá bætast ýmsir aðrir nýir kostnaðarliðir á svo stóru tjaldsvæði og okkar, t.d. umfangsmiklar merkingar, leiðbeiningar o.fl.,“ segir Tryggvi.
Geta tekið við 250 manns
Eins og staðan er í dag segir Tryggvi að tjaldsvæðið geti tekið við 200-250 gestum á 2000 manna tjaldsvæði. Unnið sé að hugmyndum um útfærslur þannig að hægt sé að taka fleiri gesti og m.a. þurfi að auka fjölga salernum. „Þetta verður krefjandi verkefni. Það er spuning hvernig Íslendingar taka þessum reglum og leiðbeiningum um framfylgni þeirra. Við verðum að treysta á að gestirnir fari eftir merkingum og leiðbeiningum því ekki hægt að fylgjast með öllum.“ Tjaldsvæðið á Hömrum hefur yfir að ráða 16 flötum og segir Tryggi að það hjálpi til við að takast á við 50 manna takmarkið. „Það gerir okkur auðveldara fyrir. En á móti kemur að við þurfum að fjölga salernum.“
Enginn rekstrargrundvöllur fyrir Þórunnarstrætið
Varðandi tjaldsvæðið við Þórunnarstrætið þá segir Tryggvi að enginn rekstrargrundvöllur sé fyrir því miðað við 50 gesti. „Það er verið að skoða hvað hægt er að gera í því máli en það verður allavega ekki fyrr en um miðjan júní sem það verður opnað ef við finnum lausn á því hvernig hægt verður að reka það.“ Spurður hvort sá möguleiki sé fyrir hendi að tjaldsvæðið verði hreinlega ekki opnað í sumar segir Tryggvi að bæjaryfirvöld ráði þeirri ákvörðun á endanum.