Þarf ítrekað að kalla eftir aðstoð til að komast leiða sinna í hjólastól

Nanna Bára segir að á alltof mörgum stöðum á Akureyri séu lyftur fyrir fólk í hjólastól í ólagi.
Nanna Bára segir að á alltof mörgum stöðum á Akureyri séu lyftur fyrir fólk í hjólastól í ólagi.

Nanna Bára Birgisdóttir segir farir sínar ekki sléttar af aðgengi fyrir fólk í hjólastól á Akureyri. Á mörgum stöðum í bænum eru lyftur í ólagi sem hamlar fólki í að komast leiða sinna. Dóttir Nönnu Báru fer allar sínar leiðir í hjólastól og hefur hún í þrígang á stuttum tíma þurft á aðstoð að halda þar sem lyftur hafa bilað.

Hún segir hvað alvarlegast í þessu vera að lyftan á Heilsugæslustöðinni á Akureyri sé léleg og úr sér gengin. „Lyftan í Amarohúsinu er komin til ára sinna og það fyrir löngu síðan. Hún er svo vanstillt að hún stoppar ekki á réttum stað og oft munar nokkrum sentimetrum, fyrir ofan eða neðan brún. Dóttir mín festist þar fyrir síðustu áramót og það þurfti að kalla út viðgerðarmann til að hjálpa okkur og koma henni á leiðarenda.“

Ólíðandi að komast ekki greiðlega að heilsugæslunni

Nanna segir þetta afar hvimleitt og geti jafnvel verið hættulegt. „Ég held að maður þurfi að leita ansi langt út fyrir landsteinana til að finna sveitafélag jafn stórt og Akureyri þar sem einungis er tryggt aðgengi að einni hæð af fjórum á heilsugæslunni,“ segir Nanna Bára en á Heilsugæslunni er það 6. hæðin þar sem hægt er að ganga beint inn af götunni (að ofan) eða taka lyftu í samliggjandi húsi.

„Þetta er alls ekki nýtt vandamál og búið að vera í umræðunni í fjöldamörg ár að gera eitthvað í þessu en ekkert gerist,“ segir Nanna Bára. Hún bendir á að nú sé á döfinni að byggja nýja heilsugæslu og óttast að lítið muni gerast í þessum málum þangað til. „Það er ólíðandi að það sé ekkert annað hægt að gera í stöðunni en að biðja um að fá að hitta sinn heilbrigðisstarfsmann á 6. hæðinni.“

Þurfti hjálp slökkviliðsins í tvígang

Þær mæðgur hafa einni lent vandræðum annarsstaðar í bænum. „Við fórum t.d. á Minjasafnið á dögunum, þar bilaði lyftan og þurfti að kalla út
slökkviliðið til að hjálpa henni niður. Við höfum einnig lent í vandræðum í Sambíóunum en þar er bara upp á von og óvon hvernig lyftan virkar. Lyftan þar stoppaði núna um daginn þegar hún fór í bíó og þá þurfti einnig að kalla út slökkviliðið til að ná dóttur minni niður,“ segir Nanna Bára.

Letjandi fyrir fólk í að taka þátt í samfélaginu

Dóttir hennar, sem er nýorðin 18 ára, tekur það inn á sig að þurfa sífellt að fá utanaðkomandi aðstoð vegna vandræða með að komast leiða sinna. „Það fauk svolítið í hana um daginn enda hefur þetta gerst trekk í trekk undanfarið. Þetta er einfaldlega niðurlægjandi og er letjandi fyrir fólk í að taka þátt í samfélaginu.“ Þá bendir Nanna Bára á að fyrir ungt fólk getur þátttaka í samfélaginu oft þýtt að fara á skemmtistaði um helgar. „En því miður fyrir dóttur mína þá lítur ekki út fyrir að hún muni koma til með að vera virk í skemmtistaðalífi bæjarins þar sem hún kemst ekki inn á marga staði.“

Segir ábyrgðina liggja víða

Nanna segir aðgengi fyrir fatlað fólk á Akureyri almennt vera að skána, en betur má en duga skal. Hún segir ennfremur að ábyrgðin liggi víða þegar kemur að aðgengi fyrir fatlaða. „Bæjaryfirvöld, ríkisvaldið, félög og fyrirtæki þurfa að líta í eigin barm til að tryggja fólki sem notast við hjólastól gott aðgengi. Brotalamirnar eru alltof víða,“ segir Nanna Bára.

Nýjast