13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Telja nauðsynlegt að hefja strætóferðir að Hömrum
Á aðalfundi Hamra útilífsmiðstöðvar skáta á Akureyri sem fram fór á dögunum var ítrekað fyrri áskoranir til bæjaryfirvalda um að komið verði á akstri strætisvagna að Hömrum á rekstrartíma tjaldsvæðisins.
Þar sem til stendur að frumkvæði Akureyrarbæjar að hætta rekstri tjaldsvæðisins við Þórunnarstræti telur stjórn Hamra að nauðsynlegt sé að komið verði á akstri strætisvagna að tjaldsvæðinu að Hömrum. Talsverður fjöldi tjaldgesta nýtir sér almenningssamgöngur til ferðalaga á milli staða innanlands.
„Gera má ráð fyrir að með aukinni umhverfisvitund er varðar kolefnisspor ferðalanga muni þessi ferðamáti aukast í framtíðinni. Þar sem talsverð vegalengd er að Hömrum og svæðið getur vart talist í hæfilegu göngufæri frá miðbæ Akureyrar beinum við þessari tillögu til bæjarins. Við bendum einnig á að akstur strætisvagna að Hömrum og í Kjarnaskóg mun nýtast hinum fjölmörgu bæjarbúum sem nýta sér svæðin til útivistar,“ segir í bréfinu.