Sýningum á Kabarett lýkur
Síðustu sýningar á söngleiknum Kabarett fara fram í Samkomuhúsinu um helgina, 8. og 9. febrúar. Söngleikurinn hefur fengið skínandi dóma gagnrýnenda og frábærar viðtökur en sýningin á laugardagskvöldið, lokasýningin, verður 27 sýningin. Kabarett er viðamesta og dýrasta uppsetning Menningarfélags Akureyrar frá upphafi en að sama skapi sú söluhæsta en tæplega fimm þúsund manns munu hafa séð söngleikinn þegar sýningum lýkur.
Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, leikstýrir söngleiknum. „Kabarett hefur verið sannkallað ævintýri og sýnir hvers við erum megnuð hér fyrir norðan. Stundum borgar sig að hugsa stórt! Enda hafa viðtökur áhorfenda verið stórkostlegar og snert mig afar djúpt,“ segir Marta.
Næsta verkefni Leikfélagsins er nýi fjölskyldusöngleikurinn, Gallsteinar afa Gissa. Söngleikurinn er byggður á samnefndri bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur en leikgerð er eftir Kristínu Helgu, Þorvald Bjarna Þorvaldsson og Karl Ágúst Úlfsson. Leikstjórn er í höndum Ágústu Skúladóttur. Söngleikurinn Gallsteinar afa Gissa verður frumsýndur í Samkomuhúsinu 23. febrúar.