Sýningin Línur opnuð í Listasafninu

Listasafnið á Akureyri.
Listasafnið á Akureyri.

Alþjóðlega samsýningin Línur opnaði í Listasafninu á Akureyri nú um helgina. Á sýningunni koma saman átta listamenn frá sex ólíkum löndum og fjórum heimsálfum; Hong Kong, Litháen, Japan, Þýskalandi, Mexíkó og Túnis og „draga línur“. Línurnar verða til í gegnum ólík listform í þeim tilgangi að eiga samskipti við umheiminn.

Sýningin tengir Ísland við fjarlæga og framandi menningarheima í gegnum myndlist. Hluti verkanna er staðbundinn, þ.e. unninn sérstaklega inn í rýmið í Listasafninu á Akureyri. Á meðal þess sem verður til í rýminu eru kontrapunktar þar sem verkin ýmist trufla eða bæta við hvert annað. Titill sýningarinnar vísar til tenginga á milli landa, á milli listforma, á milli listamanna og við samfélagið.

Í tilkynningu segir að Lína sé ljóðræn, listræn fegurð, sem talar við samfélagið á opinn og hlutlausan hátt. „Allt er spurning um sjónarhorn, hvert „horn“ afhjúpar eitthvað nýtt og verður hvati að ólíkum samtölum. Sýning sem þessi skapar skilning í gegnum samskiptin sem eiga sér stað á milli listforma og menningarheima – slíkt leiðir af sér aukið umburðarlyndi og samkennd,“ segir í tilkynningu. Sýningarstjóri er Mireya Samper. 

Fjölskylduleiðsögn um sýninguna verður sunnudaginn 16. febrúar kl. 11-12. Aðgangur er ókeypis í boði Norðurorku sem styrkir sérstaklega safnfræðslu Listasafnsins.

Nýjast