Sundlaug Akureyrar opnar 18. maí-World Class lánar búningsklefa

Sundlaugar Akureyrarbæjar verða opnaðar að nýju mánudaginn 18. maí en líkt og aðrar sundlaugar landsins hafa þær verið lokaðar frá 24. mars vegna Covid-19. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Sundlaugar verða opnaðar á venjulegum tíma. Samkvæmt tilmælum yfirvalda er í fyrstu aðeins heimilt að vera með helming þess gestafjölda sem sundlaugar geta venjulega tekið á móti. Þar af leiðandi getur komið til þess að takmarka þurfi aðgang og jafnvel loka tímabundið ef fjöldi gesta nær hámarki. Sú staða getur til dæmis komið upp að fólk þurfi að hinkra um stund ef margir eru í búningsklefa í einu.

Á sund- og baðstöðum er tveggja metra reglan um nándarmörk valkvæð, en gestir eru samt sem áður beðnir um að virða regluna eins og hægt er, einkum á svæðum eins og í búningsklefum og pottum. Jafnframt eru gestir beðnir um að dvelja ekki lengur en 1,5-2 klst. í hverri sundferð. Í samræmi við leiðbeiningar almannavarna verður eimbað lokað fyrst um sinn og eins verða hárþurrkur og sólbekkir ekki í notkun.

Gestir nota búningsklefa í World Class

Samkomubannið hefur verið nýtt til nauðsynlegra framkvæmda í Sundlaug Akureyrar, nánar tiltekið við lagfæringar á búnings- og sturtuklefum, og er unnið að því að leggja lokahönd á verkið. Þrátt fyrir að framkvæmdum sé ekki alveg lokið segir á vef bæjarins að ekki þurfi að fresta opnun vegna þess að líkamsræktarstöðin World Class hafi lánað búningsklefa til afnota fyrir sundlaugargesti fyrstu dagana.

Afgreiðsla verður með hefðbundnum hætti í Sundlaug Akureyrar en þaðan er gengið út á sundlaugarsvæðið og inn í búningsklefa World Class. Engar skóhillur eru þeim megin og því eru gestir beðnir um að nota skóbakka og geyma í skápum. Einnig er vakin athygli á því að ef fólk vill læsa skápum þá þarf að hafa með sér hengilás. Hægt er að geyma verðmæti í afgreiðslu eða í munahólfum í útiklefum.

Fyrst um sinn verða engir leikfimihópar starfræktir í sundlaugum Akureyrar. Staðan verður endurmetin að lokinni fyrstu viku eftir opnun og hefur verið rætt við hlutaðeigandi um það.

Nýjast