Sumarstarf fyrir unga leikara
Menningarfélag Akureyrar býður sjö krökkum, fæddum á árunum 2003-2005, vinnu við Leikfélag unga fólksins í sumar. „Leikfélag unga fólksins er nýtt atvinnuleikhús þar sem krakkarnir fá tækifæri til að vinna í faglegu umhverfi og segja sögur úr sínum raunveruleika,“ segir leikstjórinn Vala Fannell sem mun vinna með krökkunum.
„Leikfélag unga fólksins verður einungis skipað leikurum á aldrinum 13-16 ára. Æft verður í júlí og ágúst og frumsýnt í lok ágúst í Samkomuhúsinu. Það eina sem þú þarft að gera er að skrá þig í prufur á www.mak.is. Við leggjum áherslu á að prufan verði skemmtileg og lærdómsrík og lofum að allir munu hafa gaman að. Ekki láta það stoppa þig þó þú hafir aldrei stigið á svið áður. Einu sinni verður allt fyrst. Ef þig langar þá komdu. Allir sem hafa áhuga á leiklist eru hjartanlega velkomnir,“ segir Vala.
Verkið sem tekið verður fyrir á þessu fyrsta sumri mun fjalla um þær margslungnu hindranir og áskoranir sem móta sjálfsmynd unglingasáranna eins og t.d. einelti, kvíða, líkamsímynd, kynvitund, samfélagsmiðla og almenn samskipti. „Við vonum að verkefnið stuðli að lýðræðislegri virkni barnanna í samfélaginu og verði þar með hluti af forvarnarstafi þar sem þessi aldurshópur fær tækifæri til að láta til sín heyra og tjá sig um þau málefni sem liggja þeim á hjarta,“ segir Vala að lokum.
Eins og áður segir er skráning í prufur hafin á www.mak.is