Sumaropnun í Hlíðarfjalli
Hlíðarfjall á Akureyri opnar stólalyftuna Fjarkann annað sumarið í röð í kvöld, fimmtudagskvöldið 11. júlí. Fjallahjólabrautir Hlíðarjalls njóta mikilla vinsælda og margt fólk fer upp með lyftunni til að njóta frábærs útsýnis yfir fjörðinn og bæinn. Göngufólk getur líka tekið lyftuna á leið sinni upp á fjallstopp. Viðtökur sumarið 2018 fóru fram úr björtustu vonum og búist er við góðu sumri í ár, segir á vef Akureyrarbæjar.
„Við fengum yfir 1.200 gesti í fyrrasumar og vonumst vissulega til að fá fleiri þetta sumar,“ segir Ágúst Örn Pálsson svæðisstjóri í Hlíðarfjalli í samtali á vef bæjarins. „Mikil vinna stendur nú yfir við að koma núverandi hjólabrautum í toppstand til að auka bæði öryggi og gleði iðkenda en við erum líka að vinna í nýjum leiðum. Starfsfólk Hlíðarfjalls hefur unnið hörðum höndum að því að gera svæðið almennt huggulegra og betra fyrir alla notendur,“ segir Ágúst Örn.
Vinsælasta fjallahjólabraut Hlíðarfjalls heitir Andrés og er svokölluð flæðibraut. Hún er hentug fyrir fólk á öllum aldri og getustigum. Brautin Suðurgil er meira krefjandi og er gerð fyrir þá iðkendur sem vilja meira. „Einnig erum við að opna Ævintýraleið sem verður enn hentugri fyrir byrjendur og opin fyrir umferð bæði upp og niður. Fleiri leiðir eru svo vissulega í boði um svæðið.“ Búið er að merkja gönguleið upp fjallið bæði við stólalyftu og ofan við hana, alla leið upp.
Opið verður á fimmtudagskvöldum, föstudögum, laugardögum og sunnudögum allar helgar til 1. september. Opnunartíma, verðskrá og nánari upplýsingar er að finna á hlidarfjall.is.