Stytta af Tinna kostar rúmar 2 milljónir króna

Sem kunnugt er kom blaðamaðurinn Tinni við á Akureyri í sögunni um Dularfullu stjörnuna og vilja bæj…
Sem kunnugt er kom blaðamaðurinn Tinni við á Akureyri í sögunni um Dularfullu stjörnuna og vilja bæjaryfirvöld minnast heimsóknarinnar með þessum hætti.

Eins og fjallað var um í Vikudegi í upphafi árs hyggjast bæjaryfirvöld á Akureyri reisa styttu af teiknimyndapersónunni Tinna og hundinum hans Tobba á Torfunesbryggju. Í minnisblaði á vef bæjarins þar sem gerð er grein fyrir stöðu mála í ferlinu segir að komið sé á samband við tengiliði hjá leyfishafa Hergé í Belgíu.

„Þær verðhugmyndir sem við fengum hljóðuðu upp á u.þ.b. kr. 2.100.000 auk kostnaðar í tengslum við uppsetningu og mögulega fyrir starfsfólk frá Hergé,“ segir í minnisblaðinu.

Styttan myndi vera í mannshæð. Ekki eru til staðlaðar styttur, heldur er Hergé með samstarf við tvo listamenn sem útfæra verk í samstarfi við þau.

Næsta verkefni bæjaryfirvalda er að klára hönnun á svæðinu, senda teikningar og myndir og hvað þau séu reiðubúin til að borga fyrir verkið. Starfsmönnum Akureyrarstofu hefur verið falið að vinna áfram að málinu.

 

Nýjast