„Styrkir samfélagið okkar í heild"

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri.

Doktorsnám er hafið við Háskólann á Akureyri og voru tvær konur fyrstar til að skrá sig í doktorsnám við skólann. Í verkefnum sínum munu þær rannsaka málefni innflytjenda á Íslandi og samfélagsleg áhrif á ungar konur í sjávarþorpum.

Það var í október 2017 sem Háskólinn á Akureyri fékk heimild til að bjóða upp á doktorsnám. Heimildin nær til doktorsnáms í sex fræðigreinum; félagsfræði, hjúkrunarfræði, líftækni, lögfræði, sjávarútvegs- og fiskeldisfræði og viðskiptafræði.

Doktorsnám við Háskólann á Akureyri er einstaklingsmiðað nám og er rannsóknarverkefni lykilþáttur námsins. Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir í samtali við Vikudag að doktorsnámið sé stór áfangi.

„Þetta hefur gríðarlega mikla þýðingu til uppbyggingar á þekkingu, nýjum rannsóknum og til eflingar háskólasamfélagsins norðanlands - og landsins alls. Rannsóknir eru grunnurinn að nýsköpun og þróun í atvinnulífinu þannig að þetta gerir okkur kleift að vinna enn frekar með fyrirtækjum og stofnunum sem breikkar og styrkir samfélagið okkar í heild,“ segir Eyjólfur.

Nýjast