13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Styðja við uppbyggingu í Hrísey og Grímsey
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefur ákveðið að veita 75% afslátt af gatnagerðargjöldum á lóðum í Hrísey og Grímsey til ársloka 2021, í samræmi við heimild í 2. mgr. í 5.2. gr. í gjaldskrá gatnagerðargjalda. Þetta er gert í því skyni að styðja við uppbyggingu í eyjunum með vísan til brothættra byggða.
Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, segir að meginmarkmiðið með því að veita þennan afslátt sé að hvetja einstaklinga sem hafa hug á því að ráðast í byggingarframkvæmdir í annarri hvorri eyjunni til þess að fara af stað sem fyrst og ýta þannig undir uppbyggingu á öðrum sviðum mannlífsins.
„Bærinn hefur um nokkurt skeið komið að ýmsum verkefnum sem ætluð eru til þess að efla byggðina í eyjunum og þetta er einn liður í því," er haft eftir Höllu Björk á vef Akureyrarbæjar. Grímsey sameinaðist Akureyrarbæ árið 2009 og Hrísey árið 2004.