Stór hluti Akureyringa stefnir á vistvæna bíla
Meirihluti Akureyringa sem tóku afstöðu í nýrri könnun Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri um bifreiðakaup stefnir á að kaupa bíl sem er að hluta eða öllu leyti drifinn áfram af vistvænum orkugjöfum. Rafbílar koma þar helst til greina. Einnig íhugar fólk að kaupa tengi-tvinnbíl eða metanbíl.
Spurt var um næsta bíl sem fólk telur líklegt að það kaupi með tilliti til orkugjafa. Um 30% stefna á að kaupa bensín eða díselbíl, 23% rafbíl, 18% tengi-tvinnbíl og um 1% metanbíl. 28% svarenda sögðust ekki vita það/tóku ekki afstöðu til spurningarinnar. Ef einungis er litið til þeirra sem tóku afstöðu kemur í ljós að 59% hugsa sér að kaupa næst bíl sem drifinn er áfram af vistvænum orkugjöfum; rafbíl, tengi-tvinnbíl eða metanbíl. 41% telja líklegt að bensín eða díselbíll verði næst fyrir valinu.
Veruleg breyting á tveimur árum
Guðmundur Haukur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vistorku á Akureyri, segir niðurstöður könnunarinnar bæði jákvæðar og neikvæðar. „Helstu vonbrigðin er að það er ekki nægilega afgerandi mikill meirihluti ungs fólks sem hyggst kaupa sér vistvænan bíl. En það skýrist kannski að því að ungt fólk er minna í að kaupa sér nýja bíla og það erfiðara að fá gamla vistvæna bíla,“ segir Guðmundur Haukur.
Hann nefnir einnig að það gangi erfiðlega að fá metanbíla til að ná í gegn. Aðeins 1% svarenda stefnir á að kaupa metanbíl. „Ég skil ekki hvað veldur því. Metanið hefur verið kynnt mjög vel og fólk horfir hér á þrjá strætisvagna á götum bæjarins sem ganga fyrir metani. Metanið 40% ódýrara en bensín og dísil og bílarnir eru einnig ódýrari. Þannig að þetta er mjög umhugsunarvert.“
Hann segir hins vegar að niðurstöðurnar séu heilt yfir jákvæðar. „Þetta eru miklar breytingar frá því sem áður var og t.d. bara verulega breyting frá því fyrir tveimur árum. Ég reikna með að á árinu 2020 verði breytingin ennþá meiri því þá er von á mörgum tegundum á markaðinn af vistvænum bílum.“
Hvetja fyrirtæki í setja upp rafhleðslustöðvar
Tvær stórar rafhleðslustöðvar eru á Akureyri og er von hinni þriðju á næsta ári. Segir Guðmundur Haukur það vera nóg í ekki stærra sveitarfélagi. Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, sagði í samtali við Vikudag að það væri ánægjulegt hversu stór fjöldi íbúa stefnir á vistvænan bílakost. Hann sagði einnig það vera mikilvægt að fyrirtæki myndu setja upp rafhleðslustöðvar til að auðvelda fólki í að eiga rafbíla.
Undir þetta tekur Guðmundur Haukur. „Ég myndi vilja sjá vinnustaði koma meiri inn í þetta því margir geta lent í vandræðum með að hleðslu heima hjá sér. Ef þú býrð í einbýli er lítið mál að hlaða heima hjá sér með sinni eigin hleðslustöð. Í raðhúsum er þetta lítið mál í flestum tilvikum en þegar við erum farnir að ræða fjölbýlishús er þetta orðið mikið vesen. Þar eru allskyns flækjustig. Þá er gott að fólk getur hlaðið bílinn í vinnunni,“ segir Guðmundur Haukur.
Heilt yfir benda niðurstöður könnunarinnar til þess að stór hluti Akureyringa sé jákvæður gagnvart því að skipta yfir í umhverfisvænni bíla. Könnunin var eins og áður sagði framkvæmd af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Hún var send á netföng 1.055 einstaklinga sem skráðir eru á Akureyri. 614 svöruðu könnuninni og telst svarhlutfall því vera 58%.