Stór áform uppi í Eyjafjarðarsveit

Mikill uppgangur er í Eyjafjarðarsveit.
Mikill uppgangur er í Eyjafjarðarsveit.

Uppi eru áform um miklar byggingarframkvæmdir í Eyjafjarðarsveit á næstu árum. Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar er nú að undirbúa upptöku deiliskipulags fyrir Hrafnagilshverfi og mun sú vinna vera í gangi á næsta ári.

Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri í Eyjafarðarsveit, segir að miklir möguleikar séu enn í hverfinu til uppbyggingar ekki síst nú þegar fyrir liggur að Eyjafjarðarbraut mun fara úr hverfinu og niður á árbakkann árið 2021. Um tólf ný einbýlishús auk raðhúss verða líklega byggð í Hrafnagilshverfi á næstu tveimur árum og pláss fyrir fleiri við tilfærslu vegarins.

„Sveitarfélagið er einnig að undirbúa sig fyrir mikið framkvæmdatímabil en gert er ráð fyrir að efla skólaumhverfi Eyjafjarðarsveitar enn frekar á árunum 2021-2023 með nýbyggingum fyrir leikskóla og viðbyggingu við Hrafnagilsskóla. Endurspegla þessar framkvæmdir þær miklu áherslur sem sveitarfélagið hefur haft að leiðarljósi varðandi öflugt skólasamfélag,“ segir Finnur.

80-100 íbúðir í landi Kropps

Þá hafa landeigendur í Kroppi óskað eftir að fá að deiliskipuleggja íbúðabyggð á landi sínu og getur þar risið afar spennandi búsetukostur fyrir íbúa á norðurlandi að sögn Finns Yngva. „Aðalskipulag gerir ráð fyrir að þarna geti risið 80-100 íbúðir á árunum fram til 2030 og verður spennandi að fylgjast með þróun þessa verkefnis. Það er líka sérlega gaman að sjá þróunina utan hverfis en töluvert hefur verið um endurnýjun á bæjunum í sveitinni og þangað flutt ungt fólk með börn. Sveitin er nokkuð þéttbyggð á mörgum svæðum og eru þar verulega spennandi skilyrði fyrir fólk sem vill búa fyrir utan ys og þys borgar og bæja en samt í nálægð við góðan skóla og öfluga þjónustukjarna.“

Íbúum fer fjölgandi

Íbúum í sveitarfélaginu fer fjölgandi og var íbúafjöldinn þann 1. desember 1.070. Fjölgaði íbúum um 29 milli ára sem telst býsna gott í ekki fjölmennara sveitarfélagi. „Við erum afar ánægð með þá heilbrigðu þróun á íbúafjölda sem á sér stað í sveitafélaginu og stolt af því að fólk hafi áhuga á að búa í okkar hlýlega sveitarfélagi. Við erum ávallt bjartsýn í Eyjafjarðarsveit og væntum þess að það verði áframhaldandi aukning í sveitarfélaginu á komandi árum,“ segir Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit.

Nýjast