Stefnt að framkvæmdum við KEA hótel næsta vor

Tölvuteiknuð mynd af væntanlegu KEA hóteli. Hótelið verður við Hafnarstræti 80 eða á svokallaðri Umf…
Tölvuteiknuð mynd af væntanlegu KEA hóteli. Hótelið verður við Hafnarstræti 80 eða á svokallaðri Umferðarmiðstöðvarlóð.

KEA fjárfestingarfélag ætlar að byggja 150 herbergja hótel við Hafnarstræti 80 á Akureyri eða á svokallaðri Umferðarmiðstöðvarlóð. Upphaflega stóð til að framkvæmdir myndu hefjast í ár. Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segir í samtali við vefinn Túristi.is að nú séu vonir bundnar við að verkið hefjist í vor.

„Framkvæmdir hófust ekki síðasta sumar eins og áformað var vegna þess að væntingar um eðlilega lánsfjármögnun verkefnisins gengu ekki eftir. Ég vil rekja þá stöðu til ytri aðstæðna þar sem nokkur flugórói hefur verið síðan í vor eins og þjóðin þekkir. Við erum í samstarfi með öflugum
leigutaka í þessu verkefni og við höldum áfram undirbúningi verkefnisins í þeirri von um að hægt verði að hefja verkið næsta vor,“ segir Halldór.

Á vef Túrista.is segir að KEA hafi keypti lóðina fyrir um þremur árum en síðan þá hefur verið unnið að breytingum á skipulagi lóðarinnar svo af byggingu hótels geti orðið. Enn hefur ekki verið gefið upp undir hvaða vörumerki hótelið mun starfa en samkvæmt tilkynningu sem KEA sendi frá sér í fyrra, í tengslum við framkvæmdina, þá verður hið 150 herbergja hótel það stærsta sem verður starfrækt á Akureyri og reyndar á Norðurlandi öllu.

Nýjast