Stærsta vetrarhátíð landsins um helgina

Mynd/Akureyri.is
Mynd/Akureyri.is

Iceland Winter Games (IWG) vetrarhátíðin verður haldin í Hlíðarfjalli um helgina, dagana 22.-24. mars en um alþjóðlega vetraríþróttahátíð er að ræða. Iceland Winter Games er þriggja daga vetrar- og útivistarhátíð sem haldin er á Norðurlandi í fjórða sinn í ár. Árið 2015 sameinuðust tvær stærstu vetrarhátíðir Norðurlands, Éljagangur og IWG undir nafni og merkjum Iceland Winter Games, sem gerir IWG að stærstu vetrarhátíð landsins og er enn í mjög örum vexti.

Meðal þess sem verður um að vera á IWG í ár er t.d. Fjallahjólabrun, vélsleðaspyrna, Íslandmeistaramót í snjóblaki, sem verður haldið í Hlíðarfjalli, Íslandsmót á snjóskautum og Freeride session, þar sem skíðað er utan troðinna skíðaleiða og eru allir velkomnir að vera með. Einnig verður Meistaramót unglinga (UMÍ) í alpagreinum og skíðagöngu haldið sömu helgi í Hlíðarfjalli og því nóg um að vera í fjallinu.

„Mikið af áhugaverðum og áhorfendavænum viðburðum sem bæjarbúar og aðrir gestir eru hvattir til að fylgjast með,“ segir á vef Akureyrarbæjar. Á Glerártorgi fer svo fram vetrartækjasýning í tengslum við hátíðina þar sem gestir og gangandi geta virt fyrir sér gömul og ný tæki í heimi vetrarútivistar.

Nýjast