SS Byggir svarar gagnrýni á umdeildar byggingar
SS Byggir, sem fyrirhugar að reisa allt að 11 hæða byggingar á Oddeyrinni á Akureyri, útskýrir hugmyndir sínar í langri færslu á Facebooksíðu fyrirtækisins. Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi á svæði á Oddeyri austan Hjalteyrargötu sem einnig felur í sér breytingu á rammahluta aðalskipulagsins sem nær til Oddeyrar. Svæðið afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri. Er svæðið í dag að mestu skilgreint sem athafnasvæði en með breytingunni er gert ráð fyrir að það breytist í íbúðarsvæði þar sem heimilt verður að byggja allt að 6 til 11 hæða fjölbýlishús með athafnastarfsemi á neðstu hæð. Málið hefur vakið mikið umtal í bæjarfélaginu en skiptar skoðanir eru um ágæti fyrirhugaða bygginga.
Færslan er eftirfarandi:
„Á Akureyri má áætla að byggðar hafi verið um 100 til 200 nýjar íbúðir á ári hverju frá því að húsnæðismarkaður tók við sér að nýju eftir hrun. Sú viðbót við húsnæðismarkaðinn hefur verið nægjanleg enda fjölgun íbúa í bænum verið frekar lítil á milli ára. Bæjaryfirvöld skipuleggja lóðir og úthluta þeim til fólks og fyrirtækja og ákveða þannig hvar nýjar íbúðir eigi að rísa. Með því að tryggja gott lóðaframboð geta yfirvöld aukið samkeppni á byggingamarkaði sem aftur stemmir stigu við verðhækkun nýrra fasteigna. Ef allar nýjar íbúðir á komandi árum verða byggðar í útjaðri bæjarins, líkt og tíðkast hefur, kallar það á dýra uppbyggingu innviða, nýja skóla og leikskóla, nýjar götur og stíga, nýjar veitulagnir og frárennsli o.fl. Einnig mun slík þróun valda kostnaðaraukningu í almenningssamgöngum o.s.frv. Er þá einungis fjallað um aukin kostnað hins opinbera en ekki almennings og fyrirtækja sem að sama skapi eykst eftir því sem búseta færist lengra frá miðkjarna bæjarins.
Bæjarsjóður
Tekjur bæjarins af gatnagerðargjöldum þegar og ef byggingaráform á Eyrinni verða samþykkt eru umtalsverðar á sama tíma og miklir fjármunir sparast vegna þess að ekki þarf að ryðja land annarsstaðar á móti. Fasteignagjöld til bæjarins munu margfaldast á svæðinu ef landnýting verður í takt við hugmyndir þróunaraðila. Áframhaldandi uppbygging á Eyrinni mun síðan einungis styrkja fjárhagsstöðu Akureyrarbæjar og þannig hjálpa bæjarfélaginu að standa undir auknum kröfum um þjónustu og samkeppnishæfi. Eyrin er því lykillinn af framtíð Akureyrar!
Deiliskipulag kallar á breytingar og uppkaup
Hugmyndir að því að byggja íbúðir í þéttri byggð á umræddum byggingarreit hafa komið fram í deiliskipulagsgögnum frá Akureyrarbæ mörg undanfarin ár. Hugmyndin er því ekki komin frá SS Byggir ehf. SS Byggir ehf hefur hins vegar óskað eftir því að fá að byggja hærri hús en fjögurra hæða eins og rammaskipulag svæðisins segir til um og þess vegna sótt um breytingu á aðalskipulagi. Það flóknasta og erfiðasta við þessar hugmyndir er að innan skipulagsreitsins er eitt einbýlishús. Ef verkefnið hlýtur brautargengi næst vonandi gott samkomulag við íbúa þess um uppkaup sem og við aðra eigendur á svæðinu. Núverandi og gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir uppbyggingu á þessum reit með tilheyrandi uppkaupum og niðurrifi eldri bygginga.
Umhverfisleg ábyrgð
Skynsamleg landnýting á Eyrinni er umhverfismál. Aukin búseta miðsvæðis dregur úr notkun á einkabílum og eykur möguleika á notkun almenningssamgangna. Bíllaus lífstíll er góður kostur á flatanum á Eyrinni, þar sem stutt er í verslun og þjónustu og fjöldi vinnustaða eru innan göngufæris. Vinna stórtækra vinnuvéla við jarðvegsskipti nýtist fyrir fleiri byggða fermetra þegar landnýting er góð og byggðar eru fleiri hæðir upp. Að brjóta land með tilheyrandi jarðvegsvinnu og jarðvegsflutningum stórtækra vinnuvéla í dreifðri byggð skilur eftir sig stórt kolefnisspor. Hugmyndir SS Byggir ehf um uppbyggingu á Eyrinni miðast við vistvæna hönnun og byggingu. Á tímum upplýsingar, umhverfisvitundar og sjálfbærni er mikilvægt að hönnuðir og byggingaraðilar sýni samfélagslega ábyrgð og það sama á við um bæjaryfirvöld þegar kemur að landnýtingu, almenningssamgöngum og innviðauppbyggingu. Nýtum tækifærin á Eyrinni með umhverfið og framtíðina í huga!
Af hverju Eyrin?
Eyrin er ákjósanleg fyrir margar sakir. Eyrin er m.a. áhugaverð vegna góðrar staðsetningar, góðra tenginga við almenningssamgöngur, sögunnar, nálægðar við sjóinn, veðursældar og legu landsins. Til að komast af stað með uppbyggingu Eyrarinnar þarf að hefjast handa við uppkaup eigna. Uppkaup eigna, ef til koma, eru kostnaðarsöm. Jarðvegur á Eyrinni er að einhverju leyti landfylling sem kallar á sértækar grundunaraðgerðir. Uppkaup eigna og form grundunar gera það að verkum að kostnaður við hverja lóð er frekar hár. Til þess að halda söluverði í takti við markaðsverð nýbygginga þarf því að þessu sögðu, að byggja mikinn fjölda seljanlegra fermetra ofan á hvern lóðarfermetra. 3. – 4. hæða hús koma þess vegna ekki til greina þar sem að kostnaðarverð þeirra yrði mun hærra en markaðsverð nýbygginga. Slíkt verkefni fengi ekki fjármögnun enda eru gerðar miklar kröfur af hendi fjármögnunarfyrirtækja til útreikninga og áætlana áður en ákvörðun um framkvæmdafjármögnun liggur fyrir.
Núverandi staða
Mikil óvissa hefur í raun ríkt um framtíð Eyrarinnar og því hefur mörgum fasteignum og auðum svæðum austan Hjalteyrargötu lítið verið viðhaldið. Á því eru samt nokkrar ágætar undantekningar. Til þess að nýjar íbúðir, byggðar innan um vanræktar lóðir og fasteignir, verði eftirsóknarverðar, þarf að bjóða upp á einhverja sérstöðu. Hluti af þeirri sérstöðu er útsýni og til þess að tryggja sem flestum gott útsýni, þarf að byggja íbúðir sem þar sem horft er yfir núverandi byggingar á aðliggjandi reitum. Ímynd Eyrarinnar þarf á jákvæðri uppbyggingu að halda og mörg svæðanna austan Hjalteyrargötu eru bænum til lítils sóma. Þau svæði eru í dag hluti þess útsýnis sem blasir við skemmtiferðaskipum við komu þeirra til Akureyrar.
Jákvæð áhrif uppbyggingar
Aukin þétting byggðar á Eyrinni eykur íbúafjölda á svæðinu sem skapar öflugra og fjölbreyttara mannlíf. Við það myndast tækifæri til aukinnar þjónustu við nýja og eldri íbúa Eyrarinnar sem allir íbúar Akureyrar geta notið góðs af. Öflugt mannlíf gerir Eyrina að eftirsóknarverðum búsetukosti fyrir íbúa Akureyrar og að áhugaverðu rekstrarumhverfi fyrir þjónustufyrirtæki svæðisins. Uppbygging Eyrarinnar getur styrkt byggðina vestan Hjalteyrargötu og haft jákvæð áhrif á fasteignaverð og fasteignasölu. Við það myndast tækifæri til viðhalds og uppbyggingar á eldri eignum. Eyrin getur orðið eftirsóknarverðasti staður Akureyrar ef vel er á málum haldið og ef uppbygging hennar dregst ekki úr hófi.
Flugvöllurinn
Talsvert hefur verið rætt um hæð bygginga og áhrif þeirra á mögulegt millilandaflug í gegnum Akureyrarflugvöll. Í núgildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að byggingar megi vera um og yfir 40 metrar að hæð innan þess reits sem um er rætt. Hæð þeirra bygginga sem SS Byggir ehf er leita eftir að fá samþykktar eru vel innan núgildandi krafna flugmálayfirvalda. Isavia ohf mun fá hugmyndir SS Byggir ehf til umsagnar og allir flugrekstraraðilar geta kynnt sér byggingaáformin og komið með athugasemdir ef eitthvað hefur breyst frá því að gildandi kröfur voru settar fram. Hagsmunir Akureyringa og SS Byggir ehf eru þeir sömu þegar kemur að framtíð flugs um Akureyrarflugvöll.
Hvað er í boði?
Sitt sýnist hverjum þegar kemur að skipulagsmálum, það er gömul saga og ný. Nú er hægt að segja að a.m.k. þrír kostir séu í stöðunni. Sá fyrsti er óbreytt ástand. Engin uppkaup og litlar sem engar breytingar. Annar kostur væri að Akureyrarbær keypti upp allar eignirnar á reitnum, enda hefur bærinn áhuga á að þétta byggð og endurbyggja þennan hluta Eyrarinnar, samkvæmt gildandi skipulagi. Í framhaldi gæti bærinn svo auglýst og úthlutað lóðum sem passa inn í gildandi skipulag. Þessi leið myndi kosta bæinn talsverða fjármuni og minnka tekjur hans til skemmri og lengri tíma. Einnig myndi þessi leið skapa fordæmi fyrir aðliggjandi reiti og því má gróflega halda fram að kostnaðarauki og tekjutap bæjarins gæti hlaupið á milljörðum króna. Þriðji kosturinn sem hér er nefndur og er nú í ferli er síðan breyting á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag fyrir umræddan reit, í samvinnu við þróunaraðila, SS Byggir ehf. Slík breyting á skipulagi er háð lögum og reglum, gögn send til að fyrirtækja og stofnanna og þeim ásamt nágrönnum og almenningi gefin kostur til athugasemda. Það er von SS Byggir ehf að þessi kostur fái réttmæta og málefnalega meðferð, lögum samkvæmt og að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst,“ segir í færslunni.