Söfnunarátak ABC hófst í Lundarskóla

Nemendur í Lundarskóla voru áhugasamir um verkefnið þegar það var kynnt í vikunni.
Nemendur í Lundarskóla voru áhugasamir um verkefnið þegar það var kynnt í vikunni.

Árlegt söfnunarátak ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, hófst að þessu sinni í Lundarskóla á Akureyri mánudaginn 18. febrúar og stendur söfnunin yfir næstu þrjár vikurnar. Þetta er í 22. skipti sem söfnunin fer fram en hún gengur þannig fyrir sig að  börn í hinum ýmsu grunnskólum landsins ganga í hús í sínu skólahverfi, tvö til fjögur börn saman, og safna peningum í merkta ABC bauka.

Alla jafna eru það nemendur í 5. bekk sem taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og er það reynsla ABC að þau hafa mikinn áhuga á að hjálpa börnunum sem styrkt eru til náms í gegnum ABC barnahjálp. Nemendur fimmtu bekkjar í Lundarskóla eru þar engin undantekning og höfðu ótal spurningar um störf ABC barnahjálp þegar söfnunin var formlega sett í skólanum.

Laufey Birgisdóttir, framkvæmdastjóri ABC, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri og Hulda Sif Hermannsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra kynntu söfnunarátakið, sýndu nemendum myndir af jafnöldrum þeirra í löndunum sjö sem ABC starfar og svöruðu spurningum.

Í fyrra söfnuðust 7.231.938 krónur frá 70 grunnskólum. Á meðal þess sem peningarnir voru nýttir í má nefna að í Búrkína Fasó var íþróttasvæði útbúið við ABC skólann og nú er þar hand- og fótboltavöllur, sem og körfuboltavöllur. Fjórir grunnskólar á Akureyri taka þátt í verkefninu en það eru Giljaskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli.

 

Nýjast