13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Skólastarf á Akureyri næstu vikurnar
Fræðslustjóri Akureyrarbæjar hefur fundað með öllum skólastjórnendum leik- og grunnskóla bæjarins þar sem gerðar voru áætlanir um skólastarf á næstu vikum. Skólastjórar funduðu því næst með starfsfólki sínu í dag, mánudag, og segir í frétt á vef Akureyrarbæjar að mikill samhugur sé í fólki um að standa þétt saman, gæta fyllstu varúðar og stuðla, eftir því sem kostur er, að uppbyggilegu skólastarfi næstu vikurnar.
Í ljósi þess að skólastarf verður með mismunandi hætti milli skóla eru foreldrar beðnir um fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu á heimasíðum skólanna auk þess sem allir foreldrar munu fá nánari upplýsingar í tölvupósti í dag, mánudag.
Ljóst er að í öllu starfi leik- og grunnskóla verður lögð áhersla á að kenna börnum í aðskildum hópum og koma í veg fyrir blöndun. Vegna þessa raskast skólastarf í leikskólum og getur opnunartími breyst.
Öll sundkennsla og hefðbundin kennsla í list- og verkgreinastofum í grunnskólum fellur niður í samkomubanninu og verður íþróttakennsla í formi hreyfingar á skólalóð, inni í stofum eða með útikennslu. Frístund verður opin í framhaldi af skóladegi yngstu barna en viðbúið er að starfsemin muni að einhverju leyti skerðast. Opin hús og klúbbar á vegum félagsmiðstöðvanna falla niður vikuna 16.-23. mars. Fræðsla og val á þeirra vegum fellur einnig niður þá viku. Starfsfólk félagsmiðstöðvanna hyggst nota vikuna til þess að þróa rafrænar og útivistarvænar lausnir til að halda opin hús og hvetja til virkni og gleði meðal barna og ungmenna á Akureyri. Nánari upplýsingar berast í næstu viku.
Hugað verður sérstaklega að þörfum barna með hvers konar sérþarfir auk þess að tryggja þeim foreldrum sem starfa á heilbrigðisstofnunum þjónustu fyrir þeirra börn.
Líkt og áður hefur verið tilkynnt hefur Akureyrarbær nú þegar gripið til varúðarráðstafana til að vernda viðkvæma hópa samfélagsins, svo sem á Öldrunarheimilum Akureyrar og skjólstæðinga fjölskyldu- og búsetusviðs. Hér er hægt að lesa frétt með helstu upplýsingum. Við þetta er að bæta að Lautin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, verður lokuð frá og með morgundeginum.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, segir að vissulega sé það slæmt að eitt tilfelli hafi verð staðfest í bænum en að það hafi verið viðbúið og enn sem komið er sé bara um eitt tilfelli að ræða. „Við þurfum fyrst og fremst að hlíta fyrirmælum yfirvalda á sviði sóttvarna og almannavarna, treysta sérfræðingum okkar, stunda holla útiveru, forðast það að taka óþarfa áhættu og horfa jákvæð fram á veginn. Bærinn mun senda frá sér tilkynningar um stöðu mála í 2-3 sinnum í viku þar sem skýrt verður frá gangi mála," segir Ásthildur.