Skipar starfshóp um uppbyggingu á Akureyrarflugvelli

Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefur skipað aðgerðahóp um uppbyggingu á Akureyrarflugvelli. Starfshópurinn er skipaður fulltrúum úr samgönguráðuneytinu og atvinnuvegaráðuneytinu, Akureyrarbæ, Eyþingi, ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og Isavia. Verður hópnum falið að taka saman gögn og setja fram tillögur til að vinna að þessu markmiði.

Sigurður Ingi greindi frá þessu á Facebooksíðu sinni í gærkvöld. Þar segir að hann hafi fundað í vikunni með bæjarstjórn Akureyrarbæjar og Eyþingi um Akureyrarflugvöll sem gegni mikilvægu hlutverki í millilandaflugi.

„Góðar aðstæður eru til uppbyggingar á fluggátt til landsins á Akureyrarflugvelli og töluverð reynsla komin á hana. Unnið hefur verið að því að efla Akureyrarflugvöll fyrir millilandaflug, fyrst með lengingu flugbrautarinnar og síðan með uppsetningu á blindaðflugsbúnaði (ILS). Samhliða hefur verið unnið að því um árabil að markaðsetja Norðurland og um leið að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða m.a. með aðkomu flugþróunarsjóðs. Í stjórnarsáttmálanum er eitt af verkefnum þessarar ríkisstjórnar að huga að möguleikum til að opna fleiri hlið inn til landsins og fjölga þannig svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi var gestur Karls Eskils Pálssonar í þættinum Landsbyggðin á N4 í gærkvöld þar sem málin voru rædd en þar kom fram að starfshópurinn hefji vinnu fljótlega eftir áramót og niðurstöður ættu að liggja fyrir eftir þrjá til fjóra mánuði.

Nýjast