Skíðavertíðin hafin í Hlíðarfjalli
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar mun opna í dag, fimmtudaginn 19. desember. Verður opið frá kl. 16 til 19. Lyfturnar sem opnaðar verða eru Fjarkinn, Hólabraut og Töfrateppið. Opið verður alla daga fram að jólum. Lokað verður á aðfangadag en opnað strax á jóladag og verður opið frá 12-16 bæði jóladag og annan í jólum.
Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður í Hlíðarfjall, segir í samtali við blaðið veðurskilyrðin í vetur hafi verið frekar óhagstæð við undirbúning á skíðavetrinum og t.a.m. hafi ekki verið nægilega mikið frost til þess að framleiða snjó á fullum krafti. Þá hafi óveðrið í síðustu viku lítið bætt við snjóinn í fjallinu. „Það fauk allur snjórinn niður í bæ, þannig að við græddum lítið á því þótt allt hafi farið á kaf í bænum. En það er nægur snjór núna,“ sagði Guðmundur.
Stefnt að opnun nýrrar stólalyftu þann 1. febrúar
Framkvæmdir við nýja stólalyftu eru nú í fullum gangi í Hlíðarfjalli. Þær mjakast áfram að sögn Guðmundar. Hann segir að stefnt sé á opnun á þeirri lyftu fljótlega eftir áramót. „Við erum að horfa á 1. febrúar og vonum að sú dagsetning gangi eftir,“ segir Guðmundur. Nýja lyftan er 1.238 m og er áætlaður ferðatími í lyftunni 8,5 mínútur. Samanborið er Fjarkinn stólalyftan 1.050 m og ferðatími 6,5 mín. Lyftan verður staðsett sunnan við Fjarkann.