Skemmtiferðaskipin skapa 16,4 milljarða í tekjur og 920 heilsársstörf

Fyrstu skemmtiferðaskip sumarsins til Akureyrar koma í byrjun maí.
Fyrstu skemmtiferðaskip sumarsins til Akureyrar koma í byrjun maí.

Þessar niðurstöður má lesa úr könnun sem Cruise Iceland lét gera á áhrifum af komum skemmtiferðaskipa á efnahagslíf landsins. Könnunin var unnin í samstarfi við Hafnasamband Íslands. Könnunin var gerð um borð í skipum sem höfðu viðdvöl á Ísafirði, Akureyri og í Reykjavík á tímabilinu júní til ágúst 2018. Alls voru 2.259 farþegar spurðir.

Megintilgangur könnunarinnar var að leiða í ljós hverjar beinar og óbeinar tekjur væru af neyslu farþega skemmtiferðaskipa ásamt útgjöldum skipafélaga í höfnum. Sambærileg könnun var gerð árin 2013 - 2014. Í ljós kom að meðaltal neyslu hvers viðkomuferðamanns reyndist vera um 18.050 krónur (145 evrur) í hverri höfn. „Hin beinu efnahagslegu áhrif af komu gesta með skemmtiferðaskipum mælast 70,6 milljónir evra eða um 8,8 milljarðar króna. Þegar óbein áhrif eru reiknuð til viðbótar má ætla að þjóðhagslegur ávinningur af komu skemmtiferðaskipanna nemi 16,4 milljörðum kr.,“ segir í fréttatilkynningu. Þá kemur einnig fram í könnunni að 920 heilsársstörf hafi skapast vegna koma skemmtiferðaskipa.

Fyrstu skemmtiferðaskip sumarsins til Akureyrar koma þann 9. maí en það eru skipin MSC Fantasia og Marco Polo. Stærsta skemmtiferðaskip sumarsins kemur til Akureyrar 30. maí sem er Norwegian Getaway. Skipakomur verða alls 208 í sumar og er um 18,5% fjölgun farþega frá því í fyrra.

Nýjast