Sigmundur Davíð Gunnlaugsson boðar umbúðalaus stjórnmál..

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
Gunnar Már Gunnarsson skrifar

„Þau útskýra fyrir okkur að það þurfi að byggja miklu meira af því að það streymi svo margt fólk til landsins, og svo er útskýrt að það þurfi að streyma fólk til landsins til að geta byggt meira. Hér er einhver keðjuverkun, það eru rökin, það þurfi að byggja, því það er svo mikil fjölgun, ekki fjölgun Íslendinga, heldur fjölgun þeirra sem koma.“

Sigmundur boðar umbúðalaus stjórnmál og oft hefur hann verið umbúðalaus sjálfur. Það verður ekki af manninum tekið. Ég skal þó viðurkenna að ég hef verið ansi hugsi yfir þessum orðum hans. Hvað á hann við?

Of margir útlendingar að vinna of mörg útlendingastörf sem á endanum eru eins til þess fallin að fjölga hér útlendingum?

Þannig skil ég þessi orð. Ég er nú enginn skipulagshagfræðingur en ég þykist samt vita að við fækkum ekki störfum útlendinga nema þá að fækka störfum Íslendinga um leið.

Hér hefur sannarlega verið gríðarlegur vöxtur og sennilegast aldrei jafn fjölbreytt störf í boði fyrir ungt fólk á Íslandi. Ég hef fylgst með ungum frænkum og frændum týnast eitt af öðru í nám, hér heima, í höfuðborgina og út í heim. Ef ég tek stöðuna á eigin hugrenningum þá er bjartsýni fyrir þeirra hönd sú tilfinning sem ræður ríkjum. Bjatsýni á að þau finni sannarlega starf við hæfi að loknu námi. Slík bjartsýni er ekki sjálfsögð. Víða í Evrópu blasir við ungu fólki erfiðari vinnumarkaður nú en gerði áður gagnvart eldri kynslóðum. Atvinnuleysi ungra er allt of víða allt of hátt.

Hefur þessum vexti fylgt áskoranir? Að sjálfsögðu. Ein stærsta áskorunin eru húsnæðismálin en við getum nefnt mörg fleiri. Við höfum ekki getað mannað öll nýju störfin með innlendu vinnuafli, og þeim veruleika fylgja nýjar áskoranir sem við öll þekkjum.

Hvað húsnæðimálin snertir þá hefur verið erfitt að ná í skottið á þeim vanda. En það er að hafast. Við leysum húsnæðisvandann örugglega ekki með því að klappa á axlir erlendra iðnaðarmanna og segja kumpánlega við þá að þetta sé komið gott, þeir geti hætt að byggja hús handa sjálfum sér.

Eða er það kannski innihaldspólitíkin sem Sigmundur Davíð boðar? Hvað svo sem má kalla slíka pólitík þá hefði ég nú samt haldið að heillavænlegra væri að vinna með hlutina eins og þeir eru – þann vöxt sem hefur orðið á íslensku samfélagi – á jákvæðan hátt.

Verkefnið er og verður þetta: Tryggja ungu fólki næg tækifæri og skapa gott, réttlátt samfélag á Íslandi.

Nýjast