13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Sífellt fleiri nota frístundastyrkinn
Það sem af er ári hefur frístundastyrk verið ráðstafað fyrir um helming barna á aldrinum 6-17 ára á Akureyri, eða sem nemur samtals 56 milljónum króna. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.
Á þessu ári nemur frístundastyrkur Akureyrarbæjar 35 þúsund krónum á hvern iðkanda og gildir fyrir börn og ungmenni fædd 2002 til og með 2013. Framlög Akureyrarbæjar til niðurgreiðslu íþrótta- og tómstundastarfs hafa verið aukin á síðustu árum. Frístundastyrkurinn hefur þar af leiðandi þrefaldast frá árinu 2015.
„Nýtingin hefur farið stigvaxandi undanfarin ár samhliða hækkun á frístundastyrknum,“ segir Ellert Örn Erlingsson, deildarstjóri íþróttamála, í samtali við heimasíðu Akureyrarbæjar. Í fyrra var styrknum ráðstafað til 79% barna á þessum aldri, samanborið við 71% árið 2016. Nýtingin er langmest hjá yngsta aldurshópnum, 1.-4. bekk, en minnkar svo hlutfallslega á unglingsárunum.
Ef frístundastyrkurinn verður nýttur að fullu á þessu ári þá nemur niðurgreiðsla sveitarfélagsins í heild um 114 milljónum króna. Í byrjun ágúst hafði um 56 milljónum verið ráðstafað, eða um 49%.