Sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps
Karlmaður var í gær dæmdur til sex ára fangelsisvistar fyrir tilraun til manndráps. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Maðurinn var fundinn sekur um að hafa veitt manni fjölda lífshættulegra stungusára bæði í andlit og líkama í nóvember síðastliðnum. Auk fangelsisrefsingar var maðurinn dæmdur til að greiða brotaþola 1.200.000 krónur í miskabætur og allan sakarkostnað málsins alls 5.352.048 krónur.
Frá þessu var greint í Fréttablaðinu.
Ákærði krafðist sýknu af ákæru um tilraun til manndráps og byggði á sjónarmiðum um nauðvörn en að öðrum kosti á því að það hafi aldrei verið ætlun hans að valda dauða brotaþola. Þeir hafi verið í átökum sem brotaþoli hafi átt frumkvæði að. Sem fyrr segir féllst dómari ekki á þessi sjónarmið ákærða og var hann sakfelldur fyrir tilraun til manndráps.