Segja skort á gagnrýni frá stærstu fjölmiðlunum

Listræn verkefni sem sett eru upp á Akureyri og nágrenni eru ekki gagnrýnd eins og sambærileg verkef…
Listræn verkefni sem sett eru upp á Akureyri og nágrenni eru ekki gagnrýnd eins og sambærileg verkefni á höfuðborgarsvæðinu, segir í bréfinu.

Forystufólk í lista-og menningarlífinu á Akureyri segja mikinn skort á gagnrýnendum á listræn verkefni á Akureyri frá stærstu fjölmiðlum landsins. Í minnisblaði til bæjaryfirvalda á Akureyri, sem er undirskrifað þeim Hlyni Hallssyni safnstjóra á Listasafninu á Akureyri, Mörtu Nordal leikhússtjóra LA, Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni tónlistarstjóra MAk og Þuríði Helgu Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra MAk, er sagt að afar sjaldgæft sé að stærstu fjölmiðlar landsins gagnrýni listræn verkefni sem eru upp á Akureyri og nágrenni.

„Menningin hjá Sjónvarpi RÚV er eini fjölmiðillinn sem starfar á landsvísu sem sinnir þessi hlutverki í dag. Fjölmiðlar á borð við Morgunblaðið, Fréttablaðið og Vísi sjá sér ekki fært að senda gagnrýnendur norður vegna kostnaðar,“ segir m.a. í bréfinu og það þýði að menningarviðburðir á svæðinu fái nánast engan sýnileika í menningarumræðu á Íslandi.

Stofni sérstakan sjóð fyrir fjölmiðla

Í bréfinu er lagt til að komi verði upp sjóði sem fjölmiðlar geta sótt um í fyrir ferðir norður. Fjölmiðlar geti þá sótt um í sjóðinn og fengið greitt gegn framvísun kvittanna fyrir flugi og hóteli innan ákveðinna marka.

Stjórn Akureyrarstofu tekur undir mikilvægi þess að fjölmiðlar sem starfa á landsvísu sinni faglegri gagnrýni á listrænum verkefnum með sama hætti á landsbyggðunum og á höfuðborgarsvæðinu. Er starfsmönnum falið að kanna hug fjölmiðlanefndar og menntamálaráðuneytis til þeirrar hugmyndar sem stjórnendurnir lögðu fram.

Nýjast