Samkomulag í höfn vegna nýrrar stólalyftu í Hlíðarfjalli

Ný stólalyfta verður tekin í notkun í Hlíðarfjalli næsta vetur.
Ný stólalyfta verður tekin í notkun í Hlíðarfjalli næsta vetur.

Akureyrarbær og félagið Stólalyfta ehf., sem stofnað var um uppsetningu nýrrar stólalyftu í Hlíðarfjalli, hafa gengið frá samkomulagi við
verktakafyrirtækið G. Hjálmarsson um greiðslur vegna þeirrar jarð­vinnu sem fyrirtækið hefur nú þegar unnið í tengslum við uppsetningu nýju lyftunnar og hverfur G. Hjálmarson þar með frá verkinu.

Forsaga málsins er sú að með verksamningi frá 20. júní 2018 við Stólalyftu ehf. tók G. Hjálmarsson að sér jarðvinnu í samræmi við lýsingu verkefnis í verðfyrirspurn frá Eflu verkfræðistofu. Umfang verksins varð hins vegar meira en lagt var upp með og röskuðust áætlanir og forsendur því verulega. Ágreiningur hefur verið um uppgjör vegna þessarar vinnu og því stöðvuðust framkvæmdir um mitt síðasta sumar.

Umsamin heildargreiðsla fyrir vinnu G. Hjálmarssonar er 30 milljónir króna og er hlutur Stólalyftu ehf. 20 milljónir en hlutur Akureyrarbæjar 10 milljónir. Kemur greiðsla Akureyrarbæjar fyrst og fremst til vegna framkvæmda við nýjar skíðaleiðir, meðal annars á milli nýju stólalyftunnar og eldri stólalyftu, Fjarkans, sem fór fram samhliða jarðvinnu samkvæmt samkomulagi við Stólalyftu ehf. 

Málinu telst þar með lokið en ljóst er að nýja lyftan kemst ekki í gagnið fyrr en haustið 2019 vegna þeirra tafa sem ágreiningur um greiðslur hefur leitt af sér.

Nýja lyftan er 1.238 m og er áætlaður ferðatími í lyftunni 8,5 mínútur. Samanborið er Fjarkinn stólalyftan 1.050 m og ferðatími 6,5 mín. Lyftan verður staðsett sunnan við Fjarkann.

Nýjast