13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Samantekt: Kórónuveiran breytir daglega lífinu
Samkomubannið vegna kórónuveirunnar setur mark sitt á samfélagið. Hér á Akureyri sem og annarsstaðar hafa ýmsar stofnanir, fyrirtæki og félög þurft að bregðast við. Hér að neðan verður stiklað á stóru yfir hvernig samkomubannið hefur áhrif á margar hliðar lífsins á Akureyri en þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi.
*Leikfélag Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarhúsið Hof fresta sýningu um óákveðinn tíma. „Um leið og nýjar dagsetningar verða ákveðnar verður send út tilkynning. Sú regla gildir um miðakaup, að ef dagsetningu viðburðar er breytt, þá færast miðarnir sjálfkrafa á nýja dagsetningu. Ef ný dagsetning hentar ekki hafa stofnanirnar ákveðið að veita kaupanda rétt á endurgreiðslu, að því tilskildu að ósk um endurgreiðslu berist stofnuninni innan 7 daga frá tilkynningu um nýja dagsetningu,“ segir á vef Menningarfélagsins.
*Vegna fyrirhugaðs samkomubanns verður tónleikastaðnum Græna hattinum skellt í lás næstu fjórar vikur. „Fyrir þá viðburði sem eru á þessum tíma erum við að leita nýrra dagsetninga sem verða tilkynntar í næstu viku og gilda seldir miðar á þær dagsetningar. Ef það hentar ekki þá bakfærum við þá miða. Vonandi fer þetta allt vel og þá sjáumst við endurnærð og tónleikaþyrst að þessum tíma liðnum. Förum varlega,“ segir í tilkynningu frá Græna hattinum.
*Bíóhúsin selja einungis í annaðhvert sæti. Í tilkynningu frá Borgarbíó segir: „Í ljósi aðstæðna höfum við ákveðið að gefa gestum okkar meira persónulegt rými meðan á kvikmyndasýningum stendur. Fjölskyldur, pör og hópar sem það kjósa mega auðvitað sitja saman, en gefa þarf öðrum gestum aukið rými. Við bjóðum í afgreiðslunni upp á einnota-hanska fyrir þá sem vilja og spritt-stöðvar auk góðrar handþvotta-aðstöðu fyrir alla. Sæti eru sprittuð milli daga og sótthreinsun allra snertiflata vandlega gætt í þrifum hjá okkur.“
*MA og VMA stefna á að útskrifa nemendur á hefðbundnum tíma í vor og sumar. Á vef MA eru nemendur hvattir til að halda rútínunni sem mest, vakna á sama tíma og sinna námi yfir daginn. „Nú hefst nýr kafli í skólastarfi MA. Við gerum ráð fyrir að allir skili sér aftur í skólann þegar skólahald verður leyft að nýju þannig að við getum lokið skólaárinu með hefðbundnum hætti,“ segir á vef MA. Í tilkynningu frá VMA segir að stefnt sé á að halda áfram skólastarfi í fjarumhverfi á meðan þetta ástand varir og eins og aðstæður leyfa. Verið er að kanna hvaða möguleikar eru í stöðunni varðandi verklegt nám. Stefnt er að því að útskrift fari fram 23. maí eins og áður hafði verið gert ráð fyrir.
*Frá og með 16. mars til og með 23. apríl notast Háskólinn á Akureyri við fjarkennslu, rafræn verkefni, fjarfundi og fjöldafundi. Námslotur sem áætlaðar eru á þessu tímabili falla ekki niður, nemendur taka þátt í þeim með rafrænum hætti.Öll kennsla í húsnæði HA fellur niður og verður þess í stað færð á rafrænt form.
*Á Glerártorgi geta aldrei orðið fleiri en 100 aðilar í hverri verslun hverju sinni eða sá fjöldi sem stærð verslunar rýmir miðað við tveggja metra fjarlægðarreglu. Í tilkynningu frá Glerártorgi segir að fjöldatakmarkanir séu í sjálfu sér ekki í gangi þar sem Glerártorg er skilgreint á sama hátt og göngugatan á Akureyri. Ekki munu neinir viðburðir verða í húsinu á meðan á banninu stendur. Á Glerártorgi hefur verið komið upp sprittbrúsum við alla innganga, víða á göngum og í verslunum. Ætti því slíkur búnaður aldrei að vera langt undan. „Að sama skapi höfum við aukið þrif og erum sífellt að leita leiða til að tryggja öryggi og þægindi gesta okkar. Staðan verður svo endurmetin útfrá þeim fyrirmælum sem okkur kunna að berast frá Almannavörum.“
*Lögreglan á Norðurlandi eystra er búin að gera áætlun til að tryggja sem best órofinn rekstur hjá embættinu í kórónuveirufaraldrinum. Lögreglan greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni. Hluti af þessari áætlun felur í sér að lögreglustöðvum er skipt upp í svæði og aðgangur að hverju svæði takmarkaður við ákveðna starfsmenn. Þar að auki verður aðgangur að lögreglustöðvum takmarkaður við það sem nauðsynlegt er, starfseminnar vegna. Í tengslum við þetta hefur verið ákveðið að almenn afgreiðsla lögreglustöðvanna verði aðeins opin á milli kl. 08:00 og 16:00 á virkum dögum.
*Vetrarhátíðunum Iceland Winter Games og AK Extreme sem halda átti á Akureyri hefur ýmist verið frestað eða aflýst. Þannig hefur stjórn Iceland Winter Games ákveðið að fresta hátíðinni sem átti að fara fram 20-22 mars næstkomandi og stefnt er að því að halda hátíðina 17-19 apríl. Stjórnendur AK Extreme hátíðarinnar hafa hins vegar ákveðið að aflýsa hátíðinni í ár.
*Líkamsræktarstöðvarnar þurfa að bregðast við samkomubanninu. Þannig hefur World Class á Akureyri lækkað hámarksfjölda í hóptímasali um 50%. Allir iðkendur eru beðnir um að passa að allir hafi 2 metra á milli sín í æfingum og hvattir til að spritta öll áhöld og búnað. Einungis annað hvert upphitunartæki verður í boði. Svipað er upp á teningnum í Líkamsræktinni Bjargi. Þar verða allir hóptímar styttir um 10. mín. og fólk hvatt til þess að fara í sturtu heimavið hafi það svigrúm til þess.
*Stór ráðstefna sem halda átti á Akureyri um málefni norðurslóða í lok mars og byrjun apríl fer ekki fram vegna kórónuveirunnar og verður að öllu leyti í haldin í fjarfundi. Búist var við allt að 1.200 manns á ráðstefnuna sem fara átti fram í Hofi og í Háskólanum á Akureyri. Ráðstefnan, sem er árleg og fer fram í Portúgal á næsta ári, átti m.a. að færa ferðaþjónustuaðilum á svæðinu umtalsverðar tekjur á tíma sem er annars rólegur fyrir ferðamennsku.
*Vegna yfirvofandi Covid-19 faraldurs í samfélaginu neyðist Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík og Akureyri til að fresta öllum skimunum fyrir brjósta- og leghálskrabbameini um óákveðinn tíma.
*Í ljósi neyðarstigs almannavarna vegna COVID-19 mun Heilbrigðisstofun Norðurlands tímabundið loka almennri móttöku. Læknir eða hjúkrunarfræðingur geta þó eftir símasamband við skjólstæðing bókað tíma ef það er talið nauðsynlegt. Fólki er því bent á að hafa fyrst samband í síma við heilsugæsluna. Þetta er gert til að draga úr smitthættu skjólstæðinga sem og starfsfólks. Mun stofnunin efla fjarþjónustu á öllum starfsstöðvunum. Fólki sem í neyð leitar á heilsugæslu er alltaf sinnt en annars er bent á að hringja í 112. Á HSN á Akureyri er lokað á sama hátt almennri móttöku og vaktmóttöku. Öllum sem þurfa á vaktþjónustu að halda er bent á að hafa samband við heilsugæsluna í síma 432-4600.
*Samkaup hefur ákveðið að hafa tímabundna opnun í tólf verslunum Nettó og fimmtán verslunum Kjörbúðarinnar fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir COVID-19 veirunni. Á Akureyri verður Nettó í Hrísalundi sú búð og frá klukkan 9 til alla virka daga verður eingöngu opið fyrir þá sem eldri eru, með undirliggjandi sjúkdóma eða viðkvæmir að öðru leyti frá á meðan samkomubann er í gildi. Viðhafðar verða ítarlegar verklagsreglur. Allir snertifletir verða sótthreinsaðir og starfsmenn munu nota grímur og einnota hanska við afgreiðslu.
*Slökkviliðið á Akureyri hefur gripið til margvíslegra aðgerðra til þess að geta sinnt sínu mikilvæga starfi án hnökra fyrir samfélagið á meðan COVID-19 gengur yfir. Samgangur milli vakta hefur verið minnkaður og vaktaskipti eru nú með breyttu sniði. Sérstakur vinnuferill hefur verið útbúinn fyrir sjúkraflutninga þar sem grunur leikur á COVID-19 sýkingu.
Þá hefur einnig öllum námskeiðum og fjölmennum fundum verið frestað. Segir í tilkynningu frá Slökkviliðinu að nokkrir smitaðir starfsmenn eða grunur um smit gætu haft töluverð áhrif á liðið, þar sem heildarfjöldi starfsmanna er ekki nema 30 talsins.