13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
SAk fær ISO-vottun fyrst heilbrigðisstofnanna
Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) hefur fengið endurnýjun á gæðavottun á starfsemi sinni sem það hlaut upphaflega í desember 2015 og nú til viðbótar vottun samkvæmt alþjóðlega gæðastaðlinum ISO 9001:2015. Þar með markar sjúkrahúsið það spor að vera fyrsta heilbrigðisstofnunin á Íslandi til að hljóta slíkar viðurkenningar. Alþjóðlega faggildingarfyrirtækið Det Norske Veritas (DNV-GL) er vottunaraðilinn en það er eitt öflugasta fyrirtækið á sínu sviði í heiminum.
Gæðavottunin tekur til faglegra þátta starfseminnar á öllum sviðum og nær yfir alla þá þjónustu sem sjúkrahúsið veitir. ISO-vottunin er á hinn bóginn vottun á gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ÍST EN ISO 9001 staðli, sem gefinn var út árið 2015. Í stuttu máli má segja að sú vottun taki meira til þeirra þátta sem snúa að stjórnun, skipulagi og gæðaeftirliti í starfseminni. Báðar þessar vottanir ná til næstu þriggja ára.
Aukið öryggi sjúklinga og starfsmanna
Megindrifkrafturinn í þessari vegferð sjúkrahússins er aukið öryggi og þjónusta við sjúklinga og bætt starfsaðstaða. Vottunin og sú vinna sem henni tengist skilar markvissari vinnuferlum, auknu öryggi sjúklinga og starfsmanna og tryggir stöðugar umbætur, sem leiðir af sér skilvirkari þjónustu. Þá skerpir hún á hlutverkum hvers og eins sem m.a. hefur jákvæð áhrif á vinnuumhverfi og samskipti sem eru lykilþættir í starfsánægju. Samstarfið við úttektaraðila DNV–GL hefur gengið mjög vel og hefur vottunarferlið allt verið starfsfólki mikilvægur vegvísir að bættum árangri.
Uppskera mikillar vinnu
„Sjúkrahúsið á Akureyri hefur með þessu lagt mikla vinnu í að gera SAk að öflugum og öruggum vinnustað, með áherslu á samvinnu og bætt samskipti starfsmanna, ásamt því að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar til framtíðar. Hér er um markverðan áfanga að ræða sem er mikilvægur allri starfseminni. Allir starfsmenn hafa komið að þessu verki með einum eða öðrum hætti og notið leiðsagnar og stuðnings þeirra starfsmanna sem starfa í forystu gæðamála, s.s. stjórnenda, gæðaráðs, gæðastjóra og gæðavarða,“ segir Bjarni Jónasson, forstjóri SAk.
Leggur góðan grunn að umbótum
Hulda Rafnsdóttir, gæðastjóri Sjúkrahússins á Akureyri, segir að frá því að þessi vegferð hófst árið 2014 hafi vitund um gæða- og öryggismenningu meðal starfsfólks aukist og breytingar hafi orðið á vinnulagi og nálgun við hin ýmsu verkefni sem sinna þurfi í þeim flókna rekstri sem veiting heilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsi sé. „Því er óhætt að segja að vottunin veitir SAk gott og mikilvægt aðhald og leggur góðan grunn að umbótum og jákvæðri þróun í auknu öryggi og gæðum í allri starfsemi sjúkrahússins. Ég er mjög stolt af þessum merka áfanga,“ segir Hulda enn fremur.