Saga Travel gjaldþrota

Ferðaþjónustufyrirtækið Saga Travel á Akureyri hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Áætlað er að um 30 starfsmenn og verktakar hafi beina hagsmuni af gjaldþroti fyrirtækisins. Frá þessu var greint á vef Rúv.

Saga Travel var stofnað árið 2009 og hefur síðustu ár verið umfangsmikið í skipulagningu dagsferða frá Akureyri, Mývatnssveit og Reykjavík, auk þess að skipuleggja ferðir um allt land. Í bréfi til leiðsögumanna sem störfuðu hjá Saga Travel, segir Baldvin Esra Einarsson framkvæmdastjóri félagsins, að ekki hafi tekist að fjámagna tekjuleysi næstu vikna og mánaða. Lausafjárstaðan hafi ekki verið sterk og tilraunir til að fá lánsfé og aukið hlutafé inn í félagið hafi ekki borið árangur. 

SBA tekur bílaflotann af númerum

Þá greindi Rúv einnig frá því að SBA Norðurleið hafi tekið allan bílaflotann af númerum, nema nokkra á Akureyri sem sinna skólaakstri. Haft er eftir Gunnari M. Guðmundssyni framkvæmdastjóri SBA Norðurleið að ekkert sé framundan hjá þeim frekar en öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Hann reikni ekki með neinum ferðamönnum í sumar

Nýjast