Sælla er að gefa...... vistvænt!
Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.
Jólagjafir geta reynst sumum erfiðar. Stundum er einfaldlega erfitt að láta sér detta í hug eitthvað til að gefa vini eða ættingja og stundum getur verið erfitt að finna rétta gjöf á réttu verði.
Í dag hafa síðan bæst við enn nýjar áskoranir í þessum efnum vegna þess að meðvitundin um umhverfisspor gjafanna hefur margfaldast á skömmum tíma. Sumir vilja ekki taka þátt í neysluhyggjunni og hvað gera menn þá varðandi jólagjafir?
Jólavikudagur þekkir þetta vandamál og vill gefa lesendum nokkur góð og umhverfisvæn ráð. Fyrst og fremst ættu jólagjafir alltaf að vera persónulegar. Það er sniðugt að leita til ástvina sem þú ætlar þér að gefa gjafir og spyrja hvort þá sé eitthvað sem þá vanti. Það er alltaf góð leið til að koma í veg fyrir að gefa fólki gjafir sem verða svo ekki notaðar. Hinsvegar ef þú ert ekki alveg viss þá eru hér nokkrar hugmyndir að góðum jólagjöfum á viðráðanlegu verði.
Gefðu minningu! Áttu myndir af þér og vinunum eða fjölskyldunni að gera eitthvað minnistætt? Prentaðu út mynd af viðburðinum og settu í fallegan, jafnvel handskreyttan ramma!
Gefðu upplifun! Það er til heill hellingur af upplifunum sem hægt er að gefa. Hægt er að kaupa gjafakort í leikhús eða bíó. Þú getur gefið tónleikamiða sem þú og ástvinur getið farið saman á, eða bara út að borða!
Gefðu mat! Bakarðu smákökur fyrir jólin? Settu þær í sæta krukku eða umhverfisvæna gjafapoka og skreyttu með fallegri slaufu! Þú getur líka sett saman lítið box eða gjafapoka með kaffi, te og/eða súkkulaði. Einnig er góð hugmynd að gefa jólamöndlur og af þeim fylgir uppskrift.
Gefðu geit! Ef þú átt ættingja eða vin sem á allt og vill ekkert en þú vilt endilega gefa þeim eitthvað þá býður ABC barnahjálp upp á að gefa fjölskyldum í neyð geit á nafni vinar. Unicef býður upp á svipað, en það eru Sannar gjafir, en þegar þú kaupir Sanna gjöf fer hún til barna í neyð á nafni vinar.
Gefðu eitthvað heimagert! Ertu með einhverja hæfileika? Notaðu þá! Hægt er að búa til dagatöl, myndaalbúm, skartgripi, plögg, málverk, hvað sem er! Leyfðu ímyndunaraflinu að ráða! Ein hugmynd er t.d. að gefa ristaðar möndlur og setja þær í krukku með borða! Meðfylgjandi er uppskrift að slíku!
Léttristaðar jólamöndlur.
- · 1 ½ bolli strásykur að eigin vali, ég notaði döðlusykur.
- · ¼ bolli vatn.
- · 1 tsk vanilludropar.
- · 2 tsk kanill.
- · 3 bollar möndlur.
Aðferð.
- · Dreifið möndlum á bökunarpappir og ristið í ofni á 180° í 7-10 mínútur.
- · Hitið stóra pönnu á miðlungs hita.
- · Á hana skal setja 1 bolla sykur, ¼ bolli vatn, 1 tsk vanilludropa og 1 tsk kanil.
- · Í blöndunni þarf að hræra þar til sykurinn leysist upp og blandan er vel heit.
- · Þá má taka möndlurnar úr ofninum og bæta þeim á pönnuna og hræra þar til allar möndlurnar eru vel húðaðar.
- · Þá er ráðið að taka pönnuna af hitanum og leyfa blöndunni að kólna aðeins. Möndlurnar fara fljótt að festast saman þannig ekki leyfa þeim að kólna of lengi.
- · Á meðan möndlurnar eru að kólna má blanda saman ½ bolla af sykri og 1 tsk kanil í stóra skál.
- · Þá má færa möndlurnar af pönnunni í skálina með kanilsykrinum og hræra vel í. Þá er gott að dreifa sykurhúðuðum möndlunum aftur á bökunarplötuna og leyfa þeim að kólna almennilega án þess að þær festist saman.