Rekstur Glerárvirkjunar II fram úr vonum

Fyrsta leigugreiðslan innt af hendi. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Andrea Hjálmsd…
Fyrsta leigugreiðslan innt af hendi. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Andrea Hjálmsdóttir stjórnarformaður Fallorku við Glerárvirkjun 2. Mynd/Ragnar Hólm.

Raforkuframleiðsla nýrrar Glerárvirkjunar ofan Akureyrar gekk mjög vel á fyrsta rekstrarári og hefur farið fram úr vonum. Með sama áframhaldi er talið að hún borgi sig upp á 15-20 árum. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar en bærinn fékk í vikunni afhenta fyrstu leigugreiðslu vegna virkjunarinnar.

Á vef bæjarins segir að þann 5. október 2018 var formleg gangsetning á Glerárvirkjun II sem Fallorka byggði í Glerá ofan Akureyrar. Virkjunin framleiðir hreina og endurnýjanlega raforku sem er send beint inn á dreifikerfi Norðurorku á Akureyri. Afl virkjunarinnar er 3,3 MW. Raforkuframleiðsla í fyrra nam um 26 GWst, sem jafngildir raforkunotkun um það bil sex þúsund heimila. Fallorka og Akureyrarbær gerðu með sér samning í september 2013 um uppbyggingu Glerárvirkjunar II.

Þar kemur meðal annars fram að Fallorka muni, samhliða lagningu þrýstipípu virkjunarinnar, gera um 7 km langan göngu- og hjólastíg frá stöðvarhúsi virkjunarinnar við Réttarhvamm og upp að stíflu virkjunarinnar inni á Glerárdal. Þessi stígur er tilbúinn og einnig göngubrú yfir stífluna. Þannig hefur opnast ný og falleg leið fyrir útivistarfólk um Glerárdal. Í fyrrnefndum samningi kemur einnig fram að Fallorka skuli greiða til Akureyrarbæjar árlega gjald fyrir leigu á landi sem þarf undir mannvirki virkjunarinnar og fyrir vatnsréttindi í Glerá. Þessi leigugreiðsla er árangurstengd miðað við framleidda raforku og verðmæti hennar á heildsölumarkaði. 

Reiknuð leigugreiðsla fyrir árið 2019 er 8.660.287 kr. Fallorka ehf. er að fullu í eigu Norðurorku hf. sem aftur er í eigu Hörgársveitar, Akureyrarbæjar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps, Grýtubakkahrepps og Þingeyjarsveitar. Samanlagður íbúafjöldi í þessum sveitarfélögum sem eiga Norðurorku og Fallorku er rúmlega 22 þúsund manns. Fallorka rekur fjórar vatnsaflsvirkjanir á Eyjafjarðarsvæðinu, þ.e. Glerárvirkjun I og II og Djúpadalsvirkjun I og II. Samanlagt afl þessara virkjana er um 6,5 MW, segir í frétt á vef Akureyrarbæjar.

Nýjast