13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Reisti minnisvarða um látinn vin
Minnisvarði um Grant Wagsaff frá Kanada var afhjúpaður á Melgerðismelum á dögunum en það var Arngrímur Jóhannsson flugmaður og vinur Grants sem lét reisa minnisvarðann.
Grant lést í flugslysi um mitt sumarið 2015 þegar vél sem Arngrímur og hann flugu frá Akureyri á leið til Keflavíkur brotlenti á fjallinu Gíslahnúk í Barkárdal. Slasaðist Arngrímur töluvert en tókst sjálfum að koma sér út úr vélinni.
„Skömmu eftir eftir slysið fór ég að hugsa um að koma upp minnisvarða. Með þessu vildi ég minnast góðs vinar,“ segir Arngrímur en minnisvarðinn var unnin í Steinsmiðjunni á Akureyri.
Hann segir Grant Wagsaff gjarnan hafa búið í bústað á Melgerðismelum þegar hann var staddur hér á Akureyri, „og því fannst mér við hæfi að hafa minnisvarðann á þessum stað,“ segir Arngrímur Jóhannsson. Við athöfnina héldu þau Arngrímur og Cinthya stutt ávörp og séra Svavar Alfreð Jónsson hafði svo lokaorðin.