Rakvélaviðgerðarmeistarinn Roy Phillips

Roy Phillips, Englendingurinn sem var hvers manns hugljúfi á Húsavík, en  lést langt fyrir aldur fra…
Roy Phillips, Englendingurinn sem var hvers manns hugljúfi á Húsavík, en lést langt fyrir aldur fram. Mynd: AB.

Þessa sögu fengum við beint í æð frá söguhetjunni sjálfri, Roy Phillips, eða „straight from the horses mouth,“ eins og hann hefði orðað það.

Roy starfaði um tíma á Raftækjaverkstæði Gríms og Árna á Húsavík þar sem raftæki margvísleg voru til sölu og einnig gert við slík. Eitt sinn kom Vigfús Jónsson bóndi á Laxamýri í verslunina með rafmagnsrakvél sem hann rétti Roy og hafði uppi einhverja orðræðu um hvað græjuna bagaði. Englendingurinn Roy var þarna ekki alveg orðinn fullnuma í íslensku máli og nam því ekki nákvæmlega  hvað Fúsi var að fara, en eins og það lipurmenni sem hann var, lofaði Roy að bjarga málinu og bað Vigfús að koma aftur eftir tvo daga. Bóndi virtist nokkuð hissa á þessari afgreiðslu, en spurði þó einskis.

Svo illa vildi til að engir rafvirkjar voru tiltækir á staðnum þessa daga, en Roy vildi standa við loforðið sem hann gaf Vigfúsi og settist því niður með skrúfjárn og flísatangir, hugðist leita að biluninni og gera sjálfur við rakvélina. Sat hann við lengi dags uns þar kom að rakvélin lá í sínum 100 frumpörtum á borðinu fyrir framan hann. „Og þá fór nú að vandast málið.“ Sagði Roy.

Sem varði síðan öllum næsta degi í að raða öllu saman í eina heild á ný, en varð lítt ágengt við þá iðju. Eftir þrotlausar tilraunir við að koma rakvélinni saman aftur, gafst Roy upp og sópaði öllu móverkinu ofan í brúnan bréfpoka.

Sem hann síðan rétti Vigfúsi þegar bóndi mætti á ný í búðina og sagði sorgmæddur að því miður, þá hefði rakvélin reynst gjörónýt og algjörlega vonlaust að gera við hana. Vigfús opnaði bréfpokann og virti fyrir sér rústir rakvélarinnar og sagði síðan: „Já, satt að segja  hafði ég nú ekki orðið var við að það væri nokkur skapaður hlutur að rakvélinni, ég ætlaði nú bara að láta skipta um innstungu.“

Roy kvaðst hvorki fyrr né síðar hafa orðið lúpulegri á ævinni en í þessu tilviki. JS

 

Nýjast