Góðar aðstæður í Hlíðarfjalli þrátt fyrir hlýindin

Nægur snjór er í Hlíðarfjalli þrátt fyrir hlýindin.
Nægur snjór er í Hlíðarfjalli þrátt fyrir hlýindin.

Þrátt fyrir hlýindin undanfarna daga er enn nægur snjór í Hlíðarfjalli til að renna sér niður fjallshlíðarnar um páskana. Búast má við að fjöldi gesta leggi leið sína í fjallið næstu daga yfir páskana. Föstudagurinn langi og Páskadagur eru að jafnaði einir stærstu dagar ársins í Hlíðarfjalli.

„Miðað við aðstæður, hlýindin síðustu daga, er þokkaleg staða í fjallinu. En því miður er enginn alvöru kuldi í kortunum,“ segir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli. Hann býst við góðri aðsókn um páskana. „Páskarnir koma með sinni traffík. Þótt seint sé í ár. En svo er spurning hversu mikil traffíkin verður. Þrátt fyrir að páskarnir séu í seinna fallinu núna þá held ég að það komi ekki að sök hvað varðar aðsókn,“ segir Guðmundur Karl.

Allar lyfturnar verða opnar um páskana. „Besti og mesti snjórinn er í Strýtunni. Það svæðið er kaldara en önnur og því betra færi.“

Veturinn verið upp og niður

Guðmundur Karl segir að veturinn hafi gengið misjafnlega, en hlýindakaflar hafa gert starfsfólki erfitt um vik. „Veturinn hefur verið upp og niður. Hann byrjaði vel en svo kom langur kafli í byrjun janúar sem var mjög erfiður og við þurftum að loka í tvær vikur. Vetrarfríin í grunnskólunum hálfpartinn fuku í burtu. Þannig að þetta hefur verið erfiður vetur að mörgu leyti,“ segir Guðmundur Karl.

Veturinn fari ekki í sögubækurnar fyrir góðan vetur en sé alls ekki sá versti heldur. „Núna er sex daga törn framundan sem skilar okkur fjölda gesta og því er erfitt að segja á þessari stundu hvernig veturinn muni koma út aðsóknarlega séð.“

Andrésar Andar leikarnir verða haldnir í Hlíðarfjalli síðustu helgina í apríl og verða það síðustu dagarnir sem opið verður í fjallinu í vetur. „Eflaust verður engin snjór eftir til að hafa opið lengur. Þetta rétt sleppur yfir páskana og Andrésarleikana,“ segir Guðmundur Karl Jónsson.

Nýjast