Páskakveðja frá bæjarstjóra
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri ritar páskahugleiðingu á vef bæjarins og birtum við skrifin hér að neðan.
Ég kveiki á kertum mínum við krossins helga tré, orti Davíð Stefánsson frá Fagraskógi í kvæði sínu um föstudaginn langa. Tregafullt lagið sem Guðrún Böðvarsdóttir frá Hrafnseyri við Arnarfjörð samdi við kvæðið, lyftir orðum Davíðs á æðra stig og fyllir páskana af helgi og þökk fyrir lífið.
Þakklætið er í mínum huga mikil dygð og ég þreytist seint á því að lofa og þakka fyrir þá staðfestu og þrautseigju sem þið öll, starfsfólk Akureyrarbæjar og fólkið í framvarðalínunni, hafið sýnt í þeim erfiðu aðstæðum sem nú hafa sett tilveru okkar á hvolf. Öll erum við eins og lítil en ómissandi tannhjól í risastóru gangverki sem kallast samfélag og heldur okkur saman. Nú þegar vágesturinn mikli virðist ætla að láta undan síga, seytlar inn ómælt þakklæti, sigurvissa og trú á mannsandann. Við getum þetta saman.
Öll heimsbyggðin er sem lömuð. Framundan eru þrengingar sem samfélag þjóðanna mun þó með samtakamætti sigrast á. Allir þurfa að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og Akureyrarbær lætur ekki sitt eftir liggja. Í aðgerðaráætlun sveitarfélagsins til að mæta afleiðingum þess faraldurs sem nú geisar, er gert ráð fyrir 4,4 milljörðum króna í ýmsar framkvæmdir á þessu ári. Fyrr í vikunni var tekin fyrsta skóflustungan að nýjum leikskóla í bænum og með ýmsum öðrum aðgerðum munum við komast fljótt aftur á réttan kjöl. Við munum flýta ýmsum viðhaldsverkefnum og liðka fyrir framkvæmdum í samvinnu við ríkið. Þar eru í farvatninu risastór verkefni á borð við stækkun flugstöðvarinnar okkar, nýtt hjúkrunarheimili og tvær nýjar heilsugæslustöðvar. Allt verður gert til að halda hjólum atvinnulífsins í sveitarfélaginu gangandi og vonandi verður hægt að lágmarka skaðann.
Heimsfaraldurinn sem kenndur er við Covid-19, minnir um margt á spænsku veikina svokölluðu sem herjaði á Ísland árið 1918 og sömuleiðis berklana sem lögðu allt of marga Íslendinga að velli um svipað leyti. Guðrún Böðvarsdóttir, sem samdi lagið við kvæði Davíðs frá Fagraskógi, varð berklum að bráð aðeins 34 ára gömul. Veikt brjóst hennar hefur fyllst af þakklæti fyrir sitt stutta líf þegar hún las kvæði Davíðs og til varð hið harmþrungna en fallega lag.
Með síðasta erindi úr kvæði Davíðs „Á föstudaginn langa" vil ég þakka ykkur öllum fyrir trúmennsku og eljusemi við að knýja áfram samfélagið okkar.
Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.
Ég óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gleðilegra páska. Takk!
-Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri