Ósátt við skort á samráði vegna framtíðaruppbyggingar

Séð yfir íþróttasvæði Þórs. Mynd/Hörður Geirsson.
Séð yfir íþróttasvæði Þórs. Mynd/Hörður Geirsson.

Íþróttafélagið Þór hefur sent erindi til bæjaryfirvalda á Akureyri þar sem kallað er eftir samráði við framtíðaruppbyggingu á félagssvæði Þórs og þar verði tillit tekið til þarfa félagsins, væntanlegrar íbúaþróunar á félagssvæðinu og eflingar íþróttakjarna í samræmi við stefnu Akureyrarbæjar og ÍBA.

Félagið er ósátt við að aðalskipulaginu hafi verið breytt án samráðs við Þór og segja að þær hugmyndir sem nú séu uppi kollvarpi framtíðarhugmynd félagsins. Í grein sem birtist á vef Þórs nýlega segir að fyrir rúmu ári síðan hafi félagið skipað nefnd varðandi nýtt deiliskipulag er lýtur að þéttingu byggðar í nágrenni Þórsvallar og samþykkta íþróttastefnu bæjarins þar sem lögð verði áhersla á færri og stærri íþróttakjarna í bænum. Segir í greininni að bæjaryfirvöld hafi takið vel í hugmyndir Þórs og loforð legið fyrir um að tillögurnar yrðu teknar til efnislegrar skoðunar og samráð yrði haft við íþróttafélagið um framtíðarskipulag svæðisins.

Nýr leikskóli kollvarpar framtíðarhugmyndum

Ein af þeim hugmyndum sem settar voru fram í framtíðarsýn Þórs var að nýr leikskóli yrði sambyggður austurálmu Glerárskóla enda myndi sú staðsetning ekki spilla íþróttasvæðinu til frambúðar. Einnig, að vestan og sunnan við núverandi íþróttahús yrði svo gert ráð fyrir nýju íþróttahúsi og yfirbyggðri 50 metra sundlaug. Nú hafi hins vegar skipulagsráð kynnt tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030, sem felur í sér stækkun á lóð Glerárskóla. Í tillögunni er gert ráð fyrir byggingu leikskóla á tveimur hæðum sunnan við núverandi íþróttahús. „Verði af byggingu leikskóla á þeim stað sem skipulagsráð setur fram er ljóst að hugmyndir um byggingu nýs íþróttahúss og sundlaugar eru að engu orðnar og í raun kollvarpar þeim framtíðarhugmyndum sem verkefnahópur Þórs setti fram.
Íþróttafélagið Þór sá tækifæri í að svæði félagsins gæti stækkað og auka mætti samnýtingu mannvirkja Þórs og Glerárskóla,“ segir í greininni.

Vonbrigði fyrir félagið 

Ingi Björnsson, formaður Þórs, segir í samtali við Vikudag að þessi tillaga að aðalskipulagi sé vonbrigði fyrir félagið. „Við gerðum heildstæða tillögu af svæðinu og héldum að Akureyrarbær væri að vinna með það skipulag í huga. En svo kemur í ljós þegar bærinn auglýsir aðalskipulagið að nýr leikskóli er kominn inn á þetta skilgreinda íþróttasvæði og það breytir þessu talsvert mikið,“ segir Ingi. „Því miður hefur bærinn ekki haft neitt samráð við okkur um þetta mál. Það skipulag sem Akureyrarbær er að vinna að núna er ekki í samræmi við það sem búið var að vinna hjá félaginu og við töldum að væri góður vilji hjá bæjaryfirvöldum með.“

Stórt mál til framtíðar litið

Ingi segir þetta stórt mál þegar til framtíðar er litið. „Það eru áform um að byggja mikið Glerárþorpi á næstu árum og félagið þarf að vera með einhverja stefnu um hvernig það ætlar að mæta því ef íbúum fjölgar ört. Þannig að okkur finnst það vera stórmál ef það er þrengt að svæðinu án þess að það sé gert í sátt við okkur. Okkur finnst að þarna sé bærinn að vinna á skjön við annað. Þá hefur ÍBA og Frístundaráð verið að vinna að því að koma íþróttafélögunum saman í stærri og sterkari kjarna og þessar tillögur ganga einnig þvert á þá hugmynd með því að skerða svæðið hjá Þór, sem einmitt á að vera einn þessara kjarna,“ segir Ingi.  

 

 

Nýjast