Opnun Vaðlaheiðarganga frestast enn frekar
Malbikunin í Vaðlaheiðargöngum er langt komin en um liðna helgi lauk malbikun á neðra lagi í öllum göngunum. Vinna við malbikun er á eftir áætlun og því má búast við að opnun ganganna frestist um óákveðinn tíma. Undanfarna daga hefur verið unnið við að steypa kantsteina og malbika efra lagið á um 3.500 metra kafla.
Um helmingur af göngunum er þegar tilbúinn með tvö malbikslög. Einnig er eftir að malbika úti frá vegskála og að nýju hringtorgi Eyjarfjarðarmegin.
Valgeir Bergmann, framkvæmdarstjóri Vaðlaheiðarganga, segir í ljósi tafa á malbikun sé ljóst að bílaumferð um göngin frestast en áætlað hafði verið að opna göngin formlega þann 1. desember nk.
„Gætum þurft hjálp frá veðurguðunum“
Valgeir segir óljóst hvenær bílaumferð verði hleypt á um göngin en gangi áætlanir eftir gæti það orðið fyrir jól. Það geti þó brugðið til beggja vona. „Gangi allt í haginn gæti malbikun klárast um 7. nóvember en við gætum þurft hjálp frá veðurguðunum þar sem ekki er gott að malbika í frosti,“ segir Valgeir.
Það sé þó stór áfangi að vera búinn að malbika neðra lagið. „Það auðveldar alla vinnu í framhaldinu sem er eftir í lokafrágangi og aldrei að vita nema hægt verði að vinna þessar tafir upp.“