Nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur, eða hvað?

Friðrikka Jakobsdóttir
Friðrikka Jakobsdóttir

Deild hjúkrunarfræðinga við Eyjafjörð var stofnuð í byrjun árs 2018. Er hún deild innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Vikudagur hefur birt greinar eftir hjúkrunarfræðinga sem starfa í Eyjafirði. Tilgangurinn er að kynna hin fjölbreyttu og áhugaverðu störf hjúkrunarfræðinga á svæðinu, en þau snerta alla landsmenn á öllum aldri. Komið er að lokagreininni í þessari pistlaröð og það er Friðrikka Jakobsdóttir sem rekur endahnútinn og kynnir starf sitt. 

Já alltaf finnst mér ég vera nýútskrifuð úr hjúkrunarfræði við HA, en það eru víst komin 20 ár núna í vor!  Ég var svo lánsöm að móðir mín sem er sjúkraliði reddaði mér vinnu við aðhlynningu á Hrafnistu í Reykjavík árið sem að ég úrskrifaðist sem stúdent frá FVA á Akranesi.  Ég vissi ekki við hverju mætti búast þegar ég mætti á mína fyrstu vakt í þessu höfuðborgarævintýri mínu í janúar 1995. Enn þessi vinna sem móðir mín kom mér í lagði grunnin að því að ég sótti um skólavist í HA hjúkrunarfræði, haustið 1995. 

Námið við HA var mjög skemmtilegt enda var bekkurinn minn frábær!  Verandi barnlaus á þessum tíma þá nýtti ég starfsnámið í að víkka sjóndeildarhringinn, fór meðal annars á Sauðárkrók, Akranes, Reykjavík, Kristnes og meira að segja til Svíþjóðar.  Alls staðar var vel tekið á móti mér og ég reyndi að standa mig vel.  Á öðru ári fór ég síðan að vinna á Bæklunardeildinni á FSA með skóla, þar var gott að vera, starfsfólkið yndislegt og ég nýtti mér öll þau námstækifæri sem mér gafst. Eftir útskrift úr HA réð ég mig á Sjúkruhúsið á Akranesi, en þar er ég fædd og uppalin.  Flutti heim með þetta litla dót sem ég hafði sankað að mér og auðvitað námslánið sem ég var n.b. að klára að borga í fyrra!!  Dvölin á Akranesi var styttri en ég ætlaði mér því að ég hafði náð að krækja í Dalvíking þarna rétt fyrir útskrift og orðin ófrísk. 

Þá var bara að pakkað í bílinn aftur og um haustið flutti ég aftur norður á Akureyri.  Réð mig á Lyfjadeildina, enda alltaf búið að segja við mig að það væri brjálað álag þar og það þótti mér bara spennandi!  Það var nú heldur annað sem mætti mér á Lyfjadeildinni, þar var að vinna yndislegt fólk og mjög spennandi tækifæri fyrir nýútskrifaðan hjúkrunarfræðing.  Þar þeyttist ég um gangana með sístækkandi bumbu alveg þar til ég daginn fyrir settan dag.  Fæddist stúlka á Fæðingardeildinni 18.feb 2000, en mamman ekki alveg tilbúin í þessi átök, enda ætlaði hún bara að hafa það kósí í 2 vikur sem hún var búin að ákveða að ganga framyfir settan tíma! Þarna einu ári eftir að ég kynnist ástinni minni frá Dalvík stofnum við þessa litlu fjölskyldu sem fór síðan ört stækkandi enda stelpurnar orðnar 4. 

Ég vann á lyfjadeildinni á FSA til ársins 2002, en þá fluttum við til Dalvíkur enda barn nr. 2 á leiðinni.  Ég fór síðan eftir fæðingarorlofið að vinna á heilsugæslunni á Dalvík við heimahjúkrun, sem mér þótti mjög gaman enda hittir maður skjólstæðinga sína þar á heimavelli og myndar þannig vinatengsl meira heldur en þegar unnið er á sjúkrahúsum.  Haustið 2003 byrjaði ég síðan að vinna á Dvalarheimilinu Dalbæ, þar sem ég vinn enn í dag og líkar mjög vel, enda frábært samstarfsfólk sem eru orðnir góðir vinir mínir í dag enda þekkti ég engan þegar ég flutti til Dalvíkur. 

Þannig að á þessum 20 árum sem nú eru liðin síðan ég útskrifaðist hef ég unnið nær 16 ár við öldrunarhjúkrun.  Já það að ég upplifi mig enn sem nýútskrifaðan hjúkrunarfræðing er e.t.v. bara jákvætt því ekki finn ég fyrir leiða eða kulnun í starfi þó oft sé mikið að gera hjá mömmunni sem er fjögura barna móðir, stundar blak, golf og skíðaíþróttir ásamt því að sinna starfi sínu á Dalbæ.  Af nógu er að taka hér sem annars staðar í heilbrigðiskerfinu!  Dalbær er dæmigert hjúkrunarheimili þar sem að vistaverur og allar starfsaðstæður eru úreltar og ekki í takt við það sem við viljum sjá fyrir þá einstaklinga sem þangað koma. 

Þetta er heimili 39 íbúa, fólks sem allir hafa mismunandi þarfir við komuna hingað.  Það get ég alveg fullyrt að fáir af okkar íbúum vildu ólmir koma hingað til að búa, en það sem skín síðan í gegn eftir nokkurra vikna dvöl er að hér festir það fljótt rætur, það eignast marga nýja vini og heldur áfram að njóta lífsins!  Ég hef þá von að metnaður verður settur í allt skipulag öldrunarhjúkrunar í framtíðinni! 

Metnaður minn er enn til staðar þrátt fyrir að svona seinagangur sé ekki beint að mínu skapi, ég vil bara bretta upp ermar og byrja en KERFIÐ er víst ekki þannig! Það þarf peninga, áætlanir, setja mál í nefndir , fá samþykki, forgangsraða o.s.frv.  Mig langar að sjá heimilið mitt fært inn í 21. öldina, enn mun það taka önnur 20 ár??????

Nýjast