Nýtt sameinað blað

Vikudagur og Skarpur sameinast í Vikublaðið.
Vikudagur og Skarpur sameinast í Vikublaðið.

Í næstu viku verður breyting á útgáfustarfsemi Ásprents þegar Vikudagur og Skarpur sameinast í nýtt blað undir heitinu Vikublaðið. Þetta eru því síðustu blöðin undir heitinu Vikudagur og Skarpur. Með þeim lýkur áralangri sögu þessara blaða. Áskrifendur Vikudags og Skarps fá því nýtt blað inn um lúguna næstkomandi fimmtudag. Vikublaðið verður einnig fáanlegt í lausasölu í öllum helstu verslunum. Þá mun nýr vefur opna samhliða, www.vikubladid.is.

Ritstjóri nýja blaðsins verður Þröstur Ernir Viðarsson sem hefur ritstýrt Vikudegi frá árinu 2014 og með honum verða vanir blaðamenn á Akureyri og Húsavík sem munu fjalla um allt það helsta á svæðinu.

Þetta eru sannarlega tímamót í útgáfu fjölmiðils á Norðurlandi með spennandi og krefjandi áskorunum. Óhætt er að fullyrða að með sameiningu blaðanna felast mörg tækifæri í fjölmiðlun. Fleiri pennar munu koma að blaðinu sem þýðir fleiri sjónarhorn og fjölbreyttari efnistök. Lesendum til góða. Hið nýja blað mun stokka upp efnistökin og kynna nýja liði til leiks næstu vikur og mánuði. Blaðinu verður ekkert óviðkomandi og mun leitast eftir því að segja fréttir af málefnum líðandi stundar. Það er ekkert launungarmál að fjölmiðlar almennt berjast í bökkum rekstrarlega. En gildi ritstýrðra fjölmiðla á tímum netvæðingar og samfélagsmiðla er ótvírætt og mikilvægt að þeir haldi velli og séu sem fjölbreyttastir. Staðarmiðlar gegna ákaflega mikilvægu hlutverki í fjölmiðlaflórunni. Þeir eru vettvangur fyrir umræðu í nærsamfélaginu, fjalla um málefni líðandi stundar, hvort sem það eru fréttir, mannlíf eða menning.

Landsdekkandi miðlar einblína oft um of á höfuðborgarsvæðið og því er mikilvægt að staðarmiðlar séu til staðar til að fylla upp í það gap sem landsmiðlar skilja eftir. Rannsóknir hafa líka sýnt að fólk sem nýtir sér staðarmiðla er meira upplýst um nærsamfélagið og þar af leiðandi líklegra til að taka virkan þátt í samfélaginu. Fjölmiðlar eiga að endurspegla samfélagið og til að lesendur fái sem réttustu myndina af nærsamfélaginu þurfa staðarmiðlar að fjalla bæði um það sem vel er gert og einnig það sem miður fer í samfélaginu. Rauði þráðurinn í hinu nýja blaði verður: Fréttir, mannlífsefni, viðtöl, menning og íþróttir.

Við sem stöndum að Vikublaðinu trúum því að fjölmiðlar á landsbyggðinni eigi framtíðina fyrir sér og leggjum af stað í þetta ferðalag full bjartsýni. Við ætlum að leggja okkur af mörkum í að halda fólki á svæðinu upplýstu og veita því upplýsingar og skemmtilegt lesefni um það helsta sem er á döfinni í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Blaðið tekur fúslega við aðsendum greinum og hægt verður að senda ábendingar og fréttaskot á netfangið vikubladid@vikubladid.is

-Þröstur Ernir Viðarsson ritstjóri Vikudags og Jóhannes Sigurjónsson ritstjóri Skarps

Nýjast