Nýtt götuheiti með aðstoð nemenda

Gatan þar sem gróðrarstöðin Sólskógar stendur hefur fengið nafn en eftir samráð við nemendur í Naustaskóla var ákveðið að gatan heiti Skógargata. Skógargata er lítil gata nyrst í Kjarnaskógi. Þar hefur í áratugi verið gróðrarstöð en fyrirtækið Sólskógar og Skógræktarfélag Eyfirðinga eru nú með starfsemi við götuna. Skipulagsráð tók í október síðastliðnum fyrir erindi frá lóðarskrárritara Akureyrarbæjar um að gatan fengi götuheiti.

Sviðsstjóra skipulagssviðs var falið að leita eftir tillögum að götuheiti frá nemendum í Naustaskóla í samráði við skólastjórnendur. Tillögur bárust í desember og voru sendar nafnanefnd til úrvinnslu. Sagt er frá þessu á vef Akureyrar.

„Líkt og við var að búast komu fram margar góðar, frumlegar og fjölbreyttar hugmyndir að nafni, þar á meðal Blómahagi, Ásthildargata, Gata skógarins, Kjarnaskógargata, Músagata, Skógargata og Risaeðlustræti. Nafnanefndin lagði til að valið yrði milli Skógargötu og Músagötu. Skógargata varð ofaná með fjórum atkvæðum gegn einu. 

Nýjast