Nýr pizzustaður opnar í miðbænum

Pizzusmiðjan opnar í febrúar í sama húsnæði og Bautinn.
Pizzusmiðjan opnar í febrúar í sama húsnæði og Bautinn.

Veitingamaðurinn Einar Geirsson og eiginkona hans Heiðdís Fjóla Pétursdóttir opna nýjan pizzustað á Akureyri í febrúar sem nefnist Pizzusmiðjan. Staðurinn verður í sama húsnæði og Bautinn þar sem La Vita E Bella var áður til húsa. Einar er eigandi Bautans, Rub 23 og Sushi Corner og er þetta fjórði staðurinn sem hann opnar í bænum. Einar segir að staðurinn muni setja nýjan standard hvað varðar pizzur í bænum.

„Við keyptum sérstakan pizzaofn frá Ítalíu sem gerir eldbakaðar pizzur. Ofnarnir verða alltaf betri og betri og þetta eru fullkomnustu græjurnar í dag sem við erum að fá og er fyrsti sinnar tegundar hér í bænum. Með þessu getum við boðið upp á úrvals eldbakaðar pizzur.“

Einar segir að þörf hafi verið á pizzustað í bænum og því hafi hann ákveðið að opna einn slíkan. „Þótt það sé hægt að panta sér pizzu víða í bænum þá fannst mér vanta svona stað eins og við erum að opna. Þetta verður nýjung í pizzuflórunni og eitthvað sem passar líka ágætlega inn í það sem við erum að gera; að bjóða upp á fjölbreyttan mat og að hver staður hafi sínar áherslur,“ segir Einar.

Nýjast