Norska ríkissjónvarpið heimsækir Grímsey
Norska ríkissjónvarpið (NRK) mun heimsækja Grímsey í sumar í kringum sumarsólstöður, dagana 19.-22. júní til að taka upp efni. Mun NRK senda fjögurra manna upptökulið til Grímseyjar og taka upp efni með áherslu á heimskautabauginn, fuglalífið og fiskinn, auk mannlífsins á eyjunni. Verða viðtöl tekin við bæði heimamenn og gesti og fengið innsýn inn í líf og störf eyjaskeggja.
NRK heldur úti sérstöku prógrammi sem snýst um að heimsækja byggðir á norðurhjara veraldar en það er Sylvia Inez Liljegren sem hefur umsjón með verkefninu. Norðmenn hafa kallað Sylviu hina norsku Richard Attenborough, enda hefur hún ferðast víða um heim til að fanga náttúrulífið.
Áætlað er að þátturinn um Grímsey verði sýndur í norska ríkissjónvarpinu árið 2021.