13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Norðurorka hagnaðist um 347 milljónir
Rekstur Norðurorku var viðunandi á árinu 2019. Ársvelta samstæðunnar var um 4 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 347 milljónir króna eftir skatta og eigið fé 12,3 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norðurorku en aðalfundur hjá félaginu var haldin í síðustu viku. Þar var ákveðið að greiða hluthöfum 15% arð af hlutafé eða 127 milljónir króna. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku og dótturfélagsins Fallorku ehf. auk áhrifa frá hlutdeildarfélögunum Tengi hf. og Norak ehf. en rekstur þeirra gekk vel á árinu.
Hreinsistöð við Sandgerðisbót í notkun í sumar
Til fjárfestinga móðurfélagsins á árinu 2020 eru áætlaðir tæpir 1,5 milljarðar króna, hitaveita 818 milljónir, fráveita 235 milljónir, vatnsveita 72 milljónir, rafveita 113 milljónir og aðrir rekstrarþættir svo sem fasteignir að Rangárvöllum, bílar og búnaður um 213 milljónir króna. Á árinu var ný viðbótarhola á vinnslusvæðinu á Arnarnesi tengd hitaveitunni sem og annar hluti nýrrar Hjalteyrarlagnar. Nú er verið að leggja þriðja áfangi Hjalteyrarlagnar og í framhaldinu er bygging nýrrar dælustöðvar og loftskilju á Arnarnesi. Áætlaður heildarkostnaður við Hjalteyrarverkefnið, þ.e. borun og virkjun holu, bygging dælustöðvar, lagnir og afleiðuverk er áætlað um 2,5 milljarðar. Framkvæmdir við byggingu hreinsistöðvar fráveitu við Sandgerðisbót eru í ferli og er áætlað að taka hreinsistöðina í notkun nú í sumar.
Brýnt að sóa ekki vatni
Verkefni liðinna ára hafa verið stór og verða áfram, einkum í hitaveitu. „Toppnum er þó náð og gera áætlanir ráð fyrir að nú dragi úr fjárfestingaþörf næstu ár. Gert er ráð fyrir að fjárhagur félagsins nái jafnvægi árið 2023 og þá getu til að greiða niður lán vegna fjárfestinga liðinna ára. Þrátt fyrir stór verkefni undangengin ár er verðskrá fyrirtækisins hagstæð í samanburði við fyrirtæki í sambærilegum rekstri, von okkar er að svo verði áfram. Sem samfélagi og einstaklingum er okkur ætíð hollt að muna að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Mikið fjármagn þarf til að afla og vinna nýjar auðlindir og til uppbyggingar á kerfum til að auka flutningsgetu þeirra. Sóun á heitu vatni og neysluvatni eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum sem aftur kallar á hækkanir á verðskrá félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun á auðlindunum,“ segir í tilkynningu.
Í stjórn Norðurorku voru kjörin Eva Hrund Einarsdóttir, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Hlynur Jóhannsson og Ingibjörg Ólöf Isaksen. Í varastjórn voru kjörin, Gunnfríður Hreiðarsdóttir, Hannes Karlsson, Hilda Jana Gísladóttir, Víðir Benediktsson og Þórhallur Jónsson. Eigendur félagsins eru sex sveitarfélög, Akureyrarbær, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur og Þingeyjarsveit.