Norðurljós í Vaðlaheiðargöngum
Þeir sem ekið hafa í gegnum Vaðlaheiðargöng undanfarna daga hafa eflaust tekið eftir skrautlýsingu í einu útskotinu. Ákveðið var nýverið að setja lýsingu á einum stað en hugmyndin er að líkja eftir norðurljósum.
Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir það ekki óalgengt í löngum göngum að brjóta hlutina aðeins upp og hafa skrautlýsingu á stökum stöðum. Það sé m.a. gert til að minnka innilokunarkennd hjá sumu fólki.
„Fyrsta hugmyndin var sú að hafa sér liti við hvert neyðarrými en þau eru alls fjögur í göngunum og voru litirnir gulur, rauður, grænn og blár þá til umræðu. Hugmyndin um að hafa norðurljós kviknaði svo á kaffistofunni sem við deilum með Markaðsstofu Norðurlands fyrir 1-2 árum. Þá var markaðsátak í gangi og vakin athygli á því að ef þú gistir í fimm daga á Norðurlandi þá séu 90% líkur á að sjá norðurljósin. Ég stakk upp á því að fara með þetta í 100% og ef menn sjá þetta ekki úti þá gætum við gert þetta inní göngunum,“ segir Valgeir.
Uppátækið hefur vakið talsverða athygli þeirra sem ekið hafa um göngin. Sumir hafa velt því fyrir sér hvort þetta geti gert það að verkum að ökumenn stoppi í göngunum til að taka myndir og skapi þannig hættu. Valgeir segir að komi upp hættuleg atvik verði þetta afturkallað.
„Þetta er í raun bara tilraun hjá okkur. Við fengum lánaða kastara sem komnir voru í geymslu eftir notkun yfir jólin og ætlum að sjá hvernig þetta kemur út og fá viðbrögð frá fólki. Það hefur ekki verið vandamál í öðrum göngum að fólk sé að stoppa til að taka mynd, en þá er betra að fólk noti þar til gert útskot til að stoppa. Ef þetta mun skapa hættu þá slökkvum við á þessu,“ segir Valgeir Bergmann.