Norðlendingar hafa áhyggjur af auknum innflutningi landbúnaðarafurða
Í tilefni af því að landbúnaðarráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli og lögum um dýrasjúkdóma ákvað Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) að kanna hug íbúa á Norðurlandi eystra til nokkurra þátta er lúta að breytingunum. Frumvarpið kveður meðal annars á um að leyft verði að flytja inn hrátt ófrosið kjöt, egg og ógerilsneyddar mjólkurvörur frá og með 1. september nk. Í
búar voru spurðir hvort þeir hafi áhyggjur af því að innflutningurinn hafi í för með sér aukna hættu á að fjölónæmar bakteríur berist í menn og dýr og valdi skaða. 73% aðspurðra höfðu áhyggjur af þessu og þar af höfðu rétt rúmlega helmingur mjög miklar áhyggjur. Á Akureyri höfðu 47% mjög miklar áhyggjur en annars staðar á svæðinu var hlutfallið 64%. Konur höfðu marktækt meiri áhyggjur af þessu en karlar en lítill munur mældist út frá aldri.
Óttast að breytingarnar skaði íslenskan landbúnað
Þrír af hverjum fjórum höfðu áhyggjur af því að breytingarnar skaði íslenskan landbúnað. Konur höfðu marktækt meiri áhyggjur af því en karlar og íbúar á Akureyri höfðu minni áhyggjur af því en aðrir. Yfir 80% íbúa í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði án Akureyrar hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur en á Akureyri er hlutfallið 69%.
Þá var spurt um hvort Norðlendingar fögnuðu auknu vöruúrvali með innflutningi landbúnaðarvara. Aðeins 22 % aðspurðra sögðust gera það en ríflega helmingur fagnaði ekki auknu vöruúrvali. Líkt og í hinum spurningunum er talsverður munur á milli kynjanna en tæp 30% karla segjast fagna auknu vöruúrvali en tæp 16% kvenna. Þá sker Akureyri sig úr en þar eru mun fleiri sem fagna auknu vöruúrvali en annars staðar á svæðinu eða ríflega 26% en einungis rúmlega 15% annars staðar.
Könnunin var netkönnun meðal íbúa í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og var hún send á 2200 manns og stóð yfir 7.-25. mars 2019.