13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Niðurgreiðsla á innanlandsflugi muni styrkja landsbyggðina
Þann 1. september nk. er stefnt að því að greiðsluþátttaka ríkisins í farmiðakaupum íbúa á landsbyggðinni í innanlandsflugi hefjist. Greiðsluþátttakan mun takmarkast við ferðir sem farnar eru í einkaerindum og á eigin kostnað umsækjanda. Þannig er gert ráð fyrir að greiðsluþátttaka ríkisins verði 40% af verðinu. Markmiðið með niðurgreiðslunni er að styðja við íbúa landsbyggðarinnar og bæta aðgengi þeirra að miðlægri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrir um ári síðan skilaði starfshópur um framtíð innanlandsflugs, sem leiddur var af Njáli Trausta Friðbertssyni þingamanni NA-kjördæmis, skýrslu til ráðherra undir heitinu „Uppbygging flugvallakerfisins og efling innanlandsflugsins sem almenningssamgangna.“ Skýrslan fjallaði bæði um framtíð innanlandsflugs og rekstur flugvalla landsins, þar sem m.a. var lagt til að fargjöld fyrir þá sem búa fjarri Reykjavík yrðu niðurgreidd frá árinu 2020. Nú hefur ráðherra falið verkefnahópi að útfæra þá tillögu sem fram kom í skýrslu starfshópsins sem leiddur var að Njáli Trausta. Greiðsluþátttakan mun ná til allra íbúa sem eiga lögheimili í minnst 270 kílómetra fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, eða svæða þar sem sérstakar aðstæður kalla á slíka þátttöku. Miðað verður við ákveðinn fjölda ferða á mann á ári og niðurgreiðslan verði ákveðin hlutfall af farmiðaverði, eða 40% eins og áður segir.
„Skoska leiðin“
Njáll Trausti segir í samtali við Vikudag að grundvallaratriðið í þessu máli sé að heimilt verði að niðurgreiða fargjöld íbúa á landsbyggðinni sem búa í tiltekinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Þessi leið hefur gengið undir heitinu ,,skoska leiðin.“ Segir Njáll Trausti að í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar séu áherslur sem snúa að því að gera innanlandsflugið að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna. Lögð sé áhersla á það að landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og aðgengi að námi óháð búsetu og öðrum aðstæðum verður meginmarkmið.
Njáll Trausti segir ánægjulegt að sjá að málið sé komið þetta langt í ferli og stefnt sé að því að farið sé að vinna eftir þessum hugmyndum frá og með haustinu. „Ég hef mikla trú á að þetta verði vel nýtt og styrki landsbyggðina. Ég held að þetta sé komið til að vera og við munum halda áfram að þróa þessa leið á næstu árum.“ Hann bendir á að hann hafi fyrst rætt þetta sem bæjarfulltrúi á Akureyri árið 2016. „Það eru að verða komin fjögur ár síðan ég ræddi ,,skosku leiðina” í sérstakri umræðu í bæjarstjórn Akureyrar sem ég óskaði eftir. Það hefur verið mjög ánægjulegt að vinna með góðu fólki fyrir austan að þessu mikilvæga máli.“
Nauðsynlegt að snúa blaðinu við
Njáll Trausti segir að flestum ætti að vera ljóst að innanlandsflugið hafi átt undir högg sækja á síðustu árum. „Skoska leiðin“ sé þó ekki hugsuð til að leysa öll þau vandamál sem standa þar að baki. „Hins vegar er ljóst að þær álögur sem lagðar voru á innanlandsflugið 2011 og 2012 af vinstristjórninni höfðu mjög slæmar og skaðlegar afleiðingar í för með sér og dæmi um landsbyggðarskatt af verstu gerð. Það er nauðsynlegt að snúa af þessari leið og mikilvægt að halda því til haga að hér er um grundvallarmál að ræða fyrir þær byggðir sem standa fjærst höfuðborgarsvæðinu,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson.