Moksturinn kostar allt að 8 milljónum á dag
Snjórinn, sem kyngt hefur niður á Akureyri undanfarna daga, er dýr fyrir Akureyrarbæ. Mokstur á stórum dögum kostar um fimm milljónir króna og er þá eingöngu litið til gatna og göngustíga. Ef mokstur hjá stofnunum bæjarins; skólum, íþróttamannvirkjum og öldrunarheimilum er tekinn með í kostnaðinn er það um 7-8 milljónir á dag, samkvæmt upplýsingum blaðsins.
Akureyrarbær hefur yfir að ráða átta snjómoksturstækjum og er einnig með samning við níu verktaka um notkun á samtals 15-20 tækjum. Á föstudaginn síðasta var byrjað að moka en vegna veðurs gekk það lítið og var bara hægt að halda í horfinu. Andri Teitsson, formaður umhverfis-og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, segir að miklu máli skipti að moksturinn gangi vel en einnig þurfi að halda vel á spöðunum varðandi skipulagningu og kostnað.
„Það er settur fullur kraftur í þetta strax eins og hægt er en það tekur tíma að hreinsa göturnar. Eins og tíðin var fyrir og um helgina, þar sem hitastigið var í kringum frostmark, var snjórinn blautur og þungur, þá getur tekið margfalt lengri tíma að moka. Snjórinn verður eins og steypa,“ segir Andri.
Orðalagið olli misskilningi og stuðaði fólk
Í síðustu viku birtist frétt á vef Akureyrarbæjar þar sem athygli bæjarbúa var vakin á því að óheimilt sé að hrúga upp snjó af einkalóðum í botnlanga gatna, á gangstéttir eða aðra hluta gatna þar sem vegfarendur eiga leið um. Þetta sé fyrst og fremst gert til að tryggja öryggi fótgangandi vegfarenda, ekki síst barna.
Töluvert hefur verið rætt um þessa tilkynningu bæjarins á meðal bæjarbúa og fólk er missátt. Andri segir að engar nýjungar séu í tilkynningunni og að húsfélög sem láti einkaaðila moka bílaplön þurfi ekki að láta ferja snjóinn í burtu svo framarlega sem haugarnir séu á bílaplönum eða inni á nálægum opnum svæði þar sem þeir valda ekki hættu eða óþægindum.
„Víða í kringum fjölbýlishús er mikið pláss til þess,“ segir Andri og bætir við: „En það á hins vegar ekki að koma á óvart að ekki megi moka snjó í
stórum stíl á göngustíga, það hefur lengi verið þannig. Þetta var áréttað í tilkynningu bæjarins en orðalagið olli misskilningi og stuðaði fólk. Ég biðst afsökunar á því fyrir hönd bæjarins og við reynum að gera betur næst.“
Vaxandi áhersla á mokstur á göngustígum
Þegar kemur að forgangi í snjómokstri má nefna helstu stofnbrautir, skólasvæði og við Sjúkrahúsið. Andri segir að einnig sé vaxandi áhersla síðustu árin að moka göngustíga. „Í fyrsta lagi fyrir börnin til að tryggja öryggi og aðgengi þeirra á leið í skólann. Í öðru lagi í tengslum við umhverfis- og samgöngustefnu bæjarins að ýta undir að fólk geti notað aðra ferðamáta en einkabílinn.“
Á vef Akureyrarbæjar segir að verkstjórar bæjarins geri ráð fyrir að í lok vikunnar verði búið að moka allar götur og þá stíga sem eru mokaðir.