13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Minningarleikur Baldvins á 26 ára afmælisdegi hans
Á morgun, miðvikudaginn 15.janúar, á 26 ára afmælisdegi Baldvins Rúnarssonar, leika Þór og Magni minningarleik til heiðurs minningar Baldvins sem lést þann 31. maí síðastliðinn eftir fimm ára baráttu við krabbamein. Leikurinn er um leið hluti af Kjarnafæðismótinu 2020.
Í tilkynningu segir að það sé vel við hæfi að þessi tvö lið etji kappi í minningu Baldvins en hann lék knattspyrnu með Þór upp alla yngri flokkana og spilaði 12 leiki með Magna í meistaraflokki áður en hann þurfti að leggja takkaskóna á hilluna í kjölfar veikindanna. Baldvin var áfram ötull í starfi Þórs og þjálfaði yngri flokka félagsins til hinsta dags.
Aðgangseyrir er 500 krónur auk þess sem tekið verður við frjálsum framlögum en allur ágóði leiksins rennur í Minningarsjóð Baldvins. Tilgangur sjóðsins, sem stofnaður var í júní á síðasta ári, er að styrkja einstaklinga, hópa eða félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála í anda Baldvins og hefur þegar verið úthlutað reglulega úr sjóðnum til góðra málefna.