13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Miklar skemmdir á trjám í Kjarnaskógi
Miklar skemmdir hafa komið í ljós á trjágróðri á Norðurlandi eftir óveðrið í desember. Skógarvörðurinn í Kjarnaskógi segir gríðarmikið tjón í skóginum og mikil vinna sé framundan við lagfæringar. Frá þessu var greint á vef Rúv.
Þegar farið er um Kjarnaskóg, blasa við brotin og bogin tré hvert sem litið er. Miklar skemmdir eru í skóglendi um allt Norðurland, en mestar samt þar sem þungur og blautur snjór safnaðist á trén. Mestar skemmdir eru á furu, greni og birki. Algengt er að toppar á stórum grenitrjám hafi brotnað af og trén því hálf sköllótt.
Þá hafa áratugagamlir og gildir trjástofnar kubbast í sundur eins og eldspýtur. Sum tré bogna niður í jörð þar sem toppurinn frýs fastur. Þá segir ennfremur í frétt Rúv að ómögulegt sé að áætla tíma eða kostnað við alla þá vinnu, en það þurfi vinnuflokk í allt sumar við lagfæringar.