Mikill áhugi fyrir sýningunni á Hælinu
„Ég er alsæl með viðtökurnar,þær hafa verið virkilega góðar og ég finn mjög sterkt fyrir því hve áhuginn er mikill,“ segir María Pálsdóttir sem opnaði Hælið – setur um sögu berklanna formlega í liðinni viku að viðstöddu fjölmenni. Flutt voru ávörp, farið með ljóð og leikin tónlist auk þess sem boðið var upp á veitingar og gestum gafst kostur á að skoða sýningu Hælisins.
María segir að sýningin hafi sitt aðdráttarafl, frá því hún var opnuð um mánaðamóti júní júlí hafi straumurinn aukist. Fólk sem einhverja tengingu eigi við Kristneshælið sem var komi gjarnan og rifji minningar sínar upp. „Viðbrögin hafa verið hreint út sagt mögnuð, það vilja allir segja frá sinni reynslu og það koma hér margir í eins konar pílagrímsför, fólk sem hefur átt nákomna ættingja sem hér hafa dvalið,“ segir hún.
Hælið verður opið daglega frá kl. 11 til 18 fram í miðjan september. Þá tekur við helgaropnun en einnig verður setrið og kaffistofan opin fyrir hópa sem panta fyrirfram. Nánar er sagt frá opnunarhátíðinni í prentútgáfu Vikudags.